fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fastir pennar

Forseti megi ekki sitja lengur en tólf ár

Eyjan
Sunnudaginn 21. febrúar 2021 16:00

Enginn takmörk eru á því hversu lengi forsætisráðherra getur setið í embætti. MYND/VILHELM

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í frumvarpi forsætisráðherra eru lagðar til umtalsverðar breytingar á ákvæðum stjórnarskrár er varða forseta Íslands. Kjörtímabil lengt í sex ár og lágmarksfjöldi meðmælenda stóraukinn frá því sem nú er.

Enn er þrefað um stjórnarskrármál og í liðinni viku mælti forsætisráðherra fyrir frumvarpi til stjórnskipunarlaga. Ekki náðist samstaða meðal formanna flokkanna um tillögur sem unnið hafði verið að á þessu kjörtímabili og því fór svo að Katrín Jakobsdóttir flutti frumvarpið ein. Á opinberum vettvangi hefur ákvæði um auðlindir fengið langmesta athygli en minna verið rætt um þær umtalsverðu breytingar sem lagt er til að verði gerðar á embætti forseta Íslands.

Meirihlutakosning

Fyrir það fyrsta er lagt til í frumvarpi forsætisráðherra að breyta því fyrirkomulagi að forseti sé kosinn með einfaldri meirihlutakosningu. Slíku kerfi fylgir sú hætta að forseti verði kjörinn með mjög lágu hlutfalli atkvæða. Í ýmsum ríkjum er gerður áskilnaður um að forseti sé kjörinn með meirihluta atkvæða þannig að gjarnan þarf að efna til síðari umferðar kosninga, sbr. fyrirkomulagið í Austurríki og Frakklandi.

Aðeins einu sinni hefur forseti hlotið hreinan meirihluta þegar hann var kjörinn í fyrsta sinn, en það var árið 1968. Þá var Kristján Eldjárn kosinn með 65,6% atkvæða. Séu margir í kjöri getur svo farið að forseti verði kosinn með fylgi sem er langt innan við helmingur atkvæða. Vigdís Finnbogadóttir hlaut 33,8% atkvæða 1980 en næstur á eftir henni var Guðlaugur Þorvaldsson með 32,3%. Vel hugsanlegt er að forseti yrði kjörinn með mun minna atkvæðamagni.

Írska leiðin

Í frumvarpinu er ekki lagt til tveggja umferða fyrirkomulag heldur fari forsetakjör fram með svokallaðri forgangsröðunaraðferð. Kjósendur hafa þá val um að raða frambjóðendum í forgangsröð. Fari svo að enginn frambjóðandi hljóti meirihluta atkvæða eru atkvæði þess frambjóðanda sem fékk fæst atvæði flutt til þeirra sem kjósendur hans völdu í öðru sæti. Ferlið er endurtekið þar til einn frambjóðandi hefur náð meirihluta atkvæða. Enginn ætti þannig að geta náð kjöri sem forseti gegn vilja meirihluta kjósenda. Þessi aðferð á sér fyrirmynd í stjórnarskrá lýðveldisins Írlands frá 1937.

Aukinn fjöldi meðmælenda

Sú breyting á forsetaembættinu sem líklega ríkir hvað mest sátt um lýtur að auknum fjölda meðmælenda. Við setningu lýðveldisstjórnarskrárinnar 1944 voru kjósendur 75 þúsund talsins en eru nú orðnir ríflega 250 þúsund. Því má telja rökrétt að forsetaefni njóti stuðnings sambærilegs hlutfalls kjósenda og miðað var við í upphafi. Í nýjum tillögum er þetta orðað svo: „Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 2,5% kosningabærra manna og mest 5%.“ Það væru þá að lágmarki ríflega sex þúsund meðmælendur miðað við kjörskrá nú. Án efa mun frambjóðendum fækka til muna við þetta en í kosningunum 2016 hlutu fjögur forsetaefni færri atkvæði en sem nemur lágmarksfjölda meðmælenda, eða 1.500 manns.

Meðal fleiri breytinga er að lagt er til að forsetakosningar verði haldnar í maí eða júní í stað júní eða júlí eins og nú er og að kjörtímabil forseta hefjist 1. júlí í stað 1. ágúst. Þetta er rökstutt með þeim hætti að vegna sumarleyfa sé heppilegra að kjöri og embættistöku forseta sé lokið fyrr en nú tíðkast.

Kjörtímabil lengt í sex ár

Þá verði kjörtímabil forseta lengt í sex ár. Í greinargerð með frumvarpinu segir að þetta sé eðlileg breyting í ljósi þess að allir forsetar lýðveldisins hafi setið lengur en eitt kjörtímabil. Að auki verði forseta ekki heimilt að sitja lengur en tvö kjörtímabil samfellt, eða alls tólf ár, líkt og tíðkast í Austurríki og fleiri lýðveldum. Í þessu sambandi má velta því upp hvort ekki sé frekar ástæða til að takmarka þann tíma sem hægt er að sitja í embættum sem búnar eru eiginlegar valdheimildir – svo sem embætti forsætisráðherra. Þrír forsetar hafa setið lengur en tólf ár, tveir í sextán ár og einn í alls tuttugu ár, allir við miklar vinsældir þjóðarinnar.

Ábyrgðarleysi takmarkað

Frumvarpshöfundar telja að ábyrgðarleysi forseta á stjórnarathöfnum „samræmist illa grunnrökum lýðveldis og orki jafnvel tvímælis gagnvart skuldbindingum ríkisins á sviði alþjóðlegs refsiréttar“. Í reynd sé ekki hægt að útiloka að forseti kunni að gerast brotlegur við refsilög eða baki sér skaðabótaskyldu vegna stjórnarathafna sem ekki grundvallast á tillögu ráðherra og ráðherra beri þar af leiðandi ekki ábyrgð á. Því sé ástæða til að taka af tvímæli um að ábyrgðarleysi forseta einskorðist við málefni sem ráðherra hefur undirritað og borið undir forseta.

Frumvörp afturkölluð

Í kjölfar þess að forseti synjaði svonefndum fjölmiðlalögum staðfestingar árið 2004 afturkallaði Alþingi samþykkt sína og engin þjóðaratkvæðagreiðsla fór því fram um frambúðargildi þeirra laga, eins og áskilið er í stjórnarskrá. Um þessa tilhögun hefur verið deilt og í síðari tvö skipti þegar forseti synjaði lögum staðfestingar fóru fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Í frumvarpi forsætisráðherra er nú tekinn af vafi um þetta atriði og bundið í stjórnarskrá að Alþingi sé heimilt innan fimm daga frá synjun forseta að afturkalla lögin.

Rækilegri umræðu þörf

Efast má um að nokkur þörf sé á sumum þeirra breytinga á forsetaembættinu sem lagðar eru til, en aðrar mega teljast brýnar eins og fjölgun meðmælenda með forsetaefnum. Eins og sakir standa er ólíklegt að frumvarpið hljóti brautargengi en rétt er að spyrja hvort ekki sé ástæða til að standa að breytingum á stjórnarskrá í fleiri skrefum og að ákvæði er varða forsetaembættið yrðu tekin fyrir í sérstöku frumvarpi að lokinni rækilegri umræðu – í stað þess að þau falli í skuggann af öðrum og pólitískt umdeildari málum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið