fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Borgararnir virkjaðir til þjóðþrifaverka

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 20. desember 2020 17:00

Hjálparsveitir vinna fórnfúst starf – oft við háskalegar aðstæður. MYND/AUÐUNN

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frumvarp til laga um almannaheillafélög felur í sér viðurkenningu á mikilvægi starfsemi sem stundum er nefnd „þriðji geirinn“.

Í þarsíðustu viku mælti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir frumvarpi til laga um svonefnda almannaheillastarfsemi, en lagt er til að stórauka hvata til stuðnings við félög og sjálfseignarstofnanir sem vinna í þágu almannaheilla og létta sömuleiðis skattbyrði þessara aðila.

„Þriðji geirinn“

Hugtakið almannaheill er býsna víðfemt. Hér getur verið átt við starfsemi mannúðar- og líknarfélaga, æskulýðs- og íþróttafélaga, björgunarsveita, menningar- og listafélaga og svo mætti áfram telja. Þessi félög eru stundum kölluð „þriðji geirinn“ en það er þá starfsemi sem hvorki er hluti af hinu opinbera né einkageiranum.

Hér á landi annast frjáls félagasamtök margvísleg brýn samfélagsleg verkefni sem opinberir aðilar þyrftu ella að sinna og að líkindum gjarnan með miklu meiri tilkostnaði. Nefna má hjálparsveitir skáta, flugbjörgunarsveitirnar og slysavarnardeildir. Þar vinna þrautþjálfaðar sveitir fórnfúst starf – oft við háskalegar aðstæður. En starfsemi af þessu tagi verður ekki rekin án fjárhagslegs stuðnings fólks og fyrirtækja.

Margvíslegar ívilnanir

Samkvæmt frumvarpinu verður einstaklingum heimilað að draga framlög til almannaheillastarfsemi fyrir allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar. Þá er lagt til að atvinnurekendur geti dregið frá framlög sem nema allt að 1,5% af árstekjum frá skattskyldum tekjum sínum en hlutfallið er núna 0,75%.

Einnig er boðað að almannaheillafélög verði undanþegin greiðslu tekjuskatts og staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum, auk undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts með nánar tilgreindum skilyrðum. Félög af þessu tagi verði einnig undanþegin greiðslu stimpilgjalda og fleira mætti nefna, svo sem að lögð er til undanþága frá greiðslu erfðafjárskatts af gjöfum til almannaheillasamtaka.

Samfélag virkra borgara

Víða erlendis er skattalegum hvötum beitt til að efla starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa í þágu almannaheilla, en það eru þá félög sem ekki hafa fjárhagslegan tilgang og stefna að því að bæta hag almennings með einhverjum hætti. En sem dæmi má nefna að þá voru hugmyndir um stóraukið vægi almannaheillastarfsemi veigamikill þáttur í stefnu ríkisstjórnar Davids Cameron, forsætisráðherra Breta á árunum 2010–2016. En hann fór fram undir kosningaslagorðinu „Big Society“ eða stóru samfélagi, sem þá var hugsað sem sem andstæða „Big Government“ – færa ætti sífellt fleiri verkefni nær borgurunum sjálfum og frá ríkisvaldinu.

Markmiðið með aðgerðum stjórnar Camerons var ekki hvað síst að stefna að stóraukinni valddreifingu í samfélaginu. Mikilvægt væri að auka hvata almennings til sjálfboðaliðastarfs á vettvangi frjálsra félagasamtaka og stuðla þannig að samfélagi þar sem æ fleiri borgarar létu sig brýn samfélagsmálaefni varða með beinni þátttöku, í stað þess að ætíð væri treyst á hið opinbera.

Eldheitar hugsjónir

Velferðarkerfið hér á landi hefur frá fyrstu tíð verið að stórum hluta rekið af frjálsum félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum. Nefna má sjálfseignarstofnunina Grund og Sjómannadagssamtökin sem reistu Hrafnistuheimilin. Samband íslenskra berklasjúklinga (SÍBS) kom á fót vinnu- og endurhæfingarhælinu á Reykjalundi og svo mætti lengi telja. En til að grasrótarstarfsemi af þessu tagi nái að dafna þarf að varðveita þær eldheitu hugsjónir sem liggja til grundvallar og gera það að verkum að tugþúsundir manna og kvenna séu tilbúin að vinna sjálfboðaliðastarf í þágu málefnisins. Hið opinbera má þá ekki með nokkrum hætti tálma starfsemina.

Mikilvægi frjálsra félagasamtaka Segja má að framkomið frumvarp um skattaívilnanir til almannaheillafélaga feli í sér viðurkenningu á mikilvægu hlutverki frjálsra félagasamtaka og sjálfboðaliða í samfélaginu, en athugun starfshóps um þetta málefni leiddi í ljós að í nágrannaríkjunum væru skattalegir hvatar til starfsemi almannnaheillasamtaka mun víðtækari en hér á landi. Verði frumvarpið að lögum má vænta þess að styrkari stoðum verði rennt undir margvíslega starfsemi frjálsra félagasamtaka.

Almannaheill, samtök félaga og sjálfseignarsamtaka í almannaheillastörfum, hafa fagnað frumvarpinu sem sé að þeirra áliti til mikilla bóta fyrir „þriðja geirann“. Þau segja tillögurnar bæta verulega skattalega stöðu samtaka sem vinna að almannaheill og þar muni mestu um heimildir til handa einstaklingum til að lækka skattgreiðslur sínar með því að beina styrkjum til viðurkenndra almannaheillafélaga. Skattaleg hvatning af þessu tagi er í sumum öðrum löndum talin mikilvægust allra þeirra skattaívilnana sem þessum félögum eru búnar.

Ganga mætti lengra

Þrátt fyrir að stór skref séu stigin með þessu frumvarpi má velta því upp hvort ekki sé rétt að ganga lengra og skoða til að mynda greiðslur almannaheillasamtaka á innskatti virðisaukaskatts sem nú vega þyngra en aðrar skattgreiðslur í útgjöldum þessara samtaka, en mörg sambærileg samtök í nágrannalöndunum eru undanþegin þessum skatti.

Hér að framan var nefnt að varðveita þyrfti þær eldheitu hugsjónir sem lægju þessum félögum til grundvallar – en það þarf líka að kveikja nýjar og skapa skilyrði til þess að borgararnir geti með auðveldari hætti tekið sig saman um lausn margvíslegra þjóðþrifamála – og að slík starfsemi fái búið við sem hagfelldast lagaumhverfi í öllu tilliti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
20.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu