Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var mjög friðsamur, það virðist ríkja eindrægni í flokknum. Formaðurinn var endurkjörinn með gríðarlegum meirihluta og nýr varaformaður fékk líka feikilega góða kosningu.
En það er eitt og annað sem er athygli vert af fundinum, og ekki bara hin nokkuð óskýra málsgrein um Landspítalann í stjórnmálaályktuninni. Menn eru þegar farnir að þrátta um hvað hún þýðir.
Í fjárlaganefnd landsfundarins var ályktað að útgjöld hins opinbera verði ekki meira en 35 prósent af landsframleiðslu árið 2025. Þau eru nú um 45 prósent af landsframleiðslu sem er minna en víða í nágrannalöndum.
Þetta myndi því þýða gríðarlegan niðurskurð – og kannski ekki líklegt að það verði að veruleika. Þarna er líka að finna tillögur að mikilli einkavæðingu.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að selja eigi ákveðnar ríkiseignir s.s. eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, Landsbanka, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Íslandspósti og annan samkeppnisrekstur. Öll söluferli verða að vera opin og leikreglur skýrar. Þá er rétt að leggja niður ÁTVR og RÚV í núverandi mynd.
Í framhaldi af þessu kemur svo ályktun úr efnahags- og viðskiptanefnd fundarins þar sem segir að stefnt skuli að því að tekjuskattur og útsvar einstaklinga lækki á næstu árum og verði 25 prósent árið 2025.
Raunsætt mat – það verður að segjast eins og er að fæst af þessu er líklegt til að verða að veruleika í ríkisstjórnarsamstarfi með Vinstri grænum. Samt mátti skilja á fundinum að Sjálfstæðismenn væru þokkalega ánægðir með það.
Í ályktun utanríkismálanefndar landsfundarins er hvatt til þess að gerð verði úttekt á reynslunni af EES samningum. Það er örugglega tímabært. En svo má nefna ályktun atvinnuveganefndar þar sem er hafnað
Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.
Þetta síðasta hefur vakið athygli út fyrir landsteinana en í Noregi er nú mikið um þetta fjallað. Segir á vefnum Abc Nyheter að Íslendingar hafi sprengt sprengju undir Acer, orkustofnun Evrópusambandsins. Norðmenn tengjast raforkukerfi ESB og er hugsanlegt að þeir missi að einhverju leyti forræði yfir orkumálum sínum. Ísland tengist ekki orkukerfinu en við yrðum þó væntanlega sett undir þessa tilskipun.
Það er heldur ekki ólíklegt að í þessu máli geti Sjálfstæðisflokkurinn fundið samhljóm með hinum stjórnarflokkunum, ólíkt málunum sem eru nefnd ofar í pistlinum.