Vinskapur virtist ríkja á milli Sigmars Guðmundssonar fréttamanns og Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns í dómsal í vikunni. Vilhjálmur er lögmaður Jóns Baldvins í meiðyrðamáli hans gegn Aldísi Schram, Sigmari Guðmundssyni fréttamanni og RUV. Ljóst var að þeir Sigmar og Vilhjálmur þekktust og kom hlýleikinn þeirra á milli áhorfendum á óvart. Fyrr um daginn höfðu þau Jón Baldvin og Aldís Schram borið vitni.
Vilhjálmur hefur unnið sér inn nafnið „meiðyrðalögmaðurinn“ í gegnum árin og getið sér gott orð sem slíkur og því ekki óeðlilegt að þeir Sigmar og Vilhjálmur þekkist, enda Sigmar með 22 ára reynslu úr fjölmiðlabransanum. Þegar félagarnir voru farnir að nota gælunöfnin Simmi og Villi um hvorn annan sá dómarinn sig knúinn til þess að stíga inn í og biðja þá að halda sig við formlegri ávörp.
Bróðernið virtist þá orðið fullmikið fyrir háæruverðugt þinghald í héraðsdómi.