Sá stuðningur og aðstoð sem Þjóðkirkjan hefur veitt hælisleitendum sem mótmæltu við Austurvöll hefur valdið miklu kurri yst á hægri vængnum. Vanalega er það sá hópur sem styður kirkjuna hvað dyggast.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, kallaði Dómkirkjuna almenningsnáðhús. Hinn þekkti bloggari og tollari Guðbjörn Guðbjörnsson sagði sig úr Þjóðkirkjunni með látum. Hann sagði: „hef nákvæmlega engan áhuga á að borga skeinipappír fyrir meðlimi No Borders.“ Gústaf Níelsson sagði að dómkirkjuprestur og biskup væru „sporléttir með skeinipappírinn.“
Þá hafa sams konar skilaboð heyrst frá báðum þjóðernissinnaflokkunum, Þjóðfylkingu og Frelsisflokknum. Kirkjan þarf þó ekki að örvænta vegna þessa. Ysta hægrið getur tæpast talist fjöldahreyfing.