Augljóst var að Katrín Jakobsdóttir beitti Sjálfstæðismenn miklum þrýstingi til þess að koma Sigríði Á. Andersen úr sæti dómsmálaráðherra. Á þriðjudag var ekkert fararsnið á Sigríði og hún hefur talið stöðu sína trausta. En annað kom á daginn eftir að Katrín sneri heim frá New York.
Þegar Sigríður boðaði til blaðamannafundar sagðist hún ætla að lesa upp stutta yfirlýsingu. Við tók hins vegar nærri hálftíma ræða þar sem Sigríður reifaði enn á ný allar afsakanir sínar. Þegar hún loks kom sér að því að segja blaðamönnum frá afsögninni gerði hún það þannig að enginn skildi nákvæmlega hvað hún var að gera. Erfitt var að kyngja stoltinu.
Út á við stendur Katrín sterkt eftir þessa uppákomu, en spurningin sem eftir situr er hvort hún hafi lofað einhverju á móti.