Tölur liggja nú fyrir um heildarlaun og annan kostnað þingmanna fyrir árið 2018. Þar er staðfest að það var mikill sparnaður fólginn í því að koma loksins Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, á bílaleigubíl.
Alþingi hefur mælst til þess að þingmenn noti frekar bílaleigubíla en einkabíla. Kostnaðurinn hefur verið óhóflegur hjá sumum landsbyggðarþingmönnum, sérstaklega hjá Ásmundi. Á árunum 2014 til 2016 var kostnaðurinn hjá honum í kringum fimm milljónir á ári og rúmar fjórar milljónir fyrir árið 2017.
Í febrúar í fyrra lét hann loks til leiðast eftir harða gagnrýni og færði sig yfir á bílaleigubíl. Nemur heildarbifreiðakostnaður hans fyrir árið um tveimur og hálfri milljón. Þetta er sparnaður sem nemur um tveimur milljónum miðað við fyrri ár en hann er engu að síður dýrasti þingmaðurinn í þessum flokki.