Uppnám varð í vikunni vegna þess að meirihluti ríkisstjórnarinnar neitaði að kjósa nýjan formann umhverfis- og samgöngunefndar í stað Bergþórs Ólasonar. Vilhjálmur Árnason nefndarmaður bar því við að ekki væri hægt að taka slíka ákvörðun í skyndi og án samráðs.
Klaustursmálið kom upp í nóvember árið 2018. Nú er kominn febrúar árið 2019 og þingflokksformenn meirihlutans hafa haft nægan tíma til að ákveða þetta. Enda hefur það verið fyrirsjáanlegt að Bergþór sneri aftur.
Ljóst er því að þessi fyrirsláttur Vilhjálms gengur ekki upp og því óhætt að álykta að meirihlutinn vilji hafa Bergþór áfram. Bergþór er fylgjandi vegtollum og ríkisstjórnin þarf á slíkum stuðningi að halda til að koma þeirri óvinsælu aðgerð í gegnum þingið.