Þegar Miðflokkurinn hóf sitt málþóf um þriðja orkupakkann virtist tiltækið ætla að virka. Hreyfing myndaðist í kringum andstöðuna, fylgið reis og það sem mestu máli skipti, það fennti hratt yfir Klaustursmálið.
Miðflokksmenn voru vígreifir og gerðu sig líklega til að beita sömu aðferð í öðrum málum; kjötmálinu, sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, jafnvel málinu um kynrænt sjálfræði. Öll mál skyldi stoppa með leiðindum og ofbeldi.
En sverðið reyndist tvíeggja. Umræðan varð stöðugt neikvæðari og að lokum byrjaði fylgið að síga. Almenningur kann ekki við þessi vinnubrögð og Miðflokksmenn sáu fram á að sogast ofan í hyldýpi í sumarhitanum. Stjórnarliðar unnu störukeppnina og nú þurfa Miðflokksmenn að finna sér nýtt vopn.