Jón Gunnarsson fer nú fremstur í flokki þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem gagnrýna Svandísi Svavarsdóttur vegna áherslu á að fjármagn renni fyrst og fremst til opinberrar heilbrigðisþjónustu. Á meðan fari fjármagn til sjálfstætt starfandi fyrirtækja dvínandi. Jón hefur verið andlit þessarar baráttu, bæði á ritvellinum og í viðtölum.
Þessi deila stjórnarflokkanna kemur upp á versta tíma, í orkupakkastorminum miðjum þar sem ríkisstjórnin er með bæði stjórnarandstöðuna og marga af eigin kjósendum og grasrótarfólki á móti sér.
Jón var ekki sáttur við stjórnarmyndunina þegar ljóst var að hann myndi missa ráðherrastól. Hefur hann þegar sýnt upphlaupstakta í vegtollamálinu og nú heggur hann áfram í samstarfsflokkana.