Snæbjörn Brynjarsson sýndi mjög óíslenska hegðun í vikunni og sagði af sér sem varaþingmaður Pírata. Var það í kjölfar þess að hann hafði hellt sér yfir Ernu Ýri Öldudóttur, blaðamann Viljans, með svívirðingum á öldurhúsi. Í tilkynningu sinni baðst hann einnig afsökunar á athæfi sínu.
Margir eru undrandi á hversu fljótt Snæbjörn brást við og af mikilli festu. Má segja að hann hafi slegið vopnin úr höndunum þeirra sem ætluðu að nota málið gegn honum og flokki hans, Pírötum.
Snæbjörn sleppur að sjálfsögðu ekki ólaskaður frá málinu eins og riddari á hvítum hesti. En hann sýndi að heilindi liggja að baki, heilindi sem eru sjaldséð í íslenskum stjórnmálum.