Í vikunni hefur verið gert óspart grín að tveimur þingmönnum Pírata fyrir að hafa stillt sér upp við hlið pontu Alþingis á meðan Bergþór Ólason hélt þar ávarp. Þau Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir báru húfur sem á stóð FO, eða Fokk ofbeldi, augljóslega í tengslum við þátt Bergþórs í Klaustursmálinu.
Þórhildur Sunna hefur sérstaklega fengið að kenna á því frá hægrimönnum og dár dregið af vaxtarlagi hennar. Einn þingmaður Miðflokksins birti mynd af henni á samfélagsmiðlum með húfuna en tók hana síðan út þegar umræðurnar voru orðnar svæsnar og rætnar.
Páll Vilhjálmsson steig einnig fram á ritvöllinn og skrifaði „Lítil húfa á stórum skrokki“ og spurði „Hver er lýðheilsustefna Pírata?“