Voru þau meira og minna sammála um efnið en ósammála um orðalag. Sjálfstæðismenn átta sig á því að til að reka fleyg í samstarf borgarstjórnarflokkanna og fá Viðreisn á sitt band verður Borgarlínan að fylgja.
Það sem vakti athygli var hversu alúðlegt viðtalið var þar sem Ragnhildur virtist daðra við Pawel. Sagði hún til dæmis að Pawel hefði aðstoðað hana í jómfrúarræðunni og spjallið var allt á vinsamlegum nótum. Þeir sem hafa hlustað á Ragnhildi áður vita að hún getur bitið fast og miskunnarlaust frá sér.
Ragnhildur sagðist eftir viðtalið hafa biðlað til Pawels að „hætta þessu Viðreisnarrugli“ og koma aftur heim. Henni varð þó ekki að ósk sinni. „Hann sagði nei og hjólaði á brott á fagurbláa hjólinu sínu.“