Öllum er það ljóst að meirihlutasamstarfið í borginni stendur nú á brauðfótum. Öll spjót standa á borgarstjóra sem ætlar sér ekki að axla neina ábyrgð og reyna frekar að bíða af sér storminn. Það er aftur á móti ekki örvadrífa andstæðinganna sem hann þarf að hafa áhyggjur af heldur samstarfsfólk sitt sem ókyrrist með hverri mínútunni sem líður.
Nú horfa margir á Þórdísi Lóu og velta fyrir sér hennar pólitísku beinabyggingu. Ætlar hún að pakka í vörn með Degi eða taka sjálf frumkvæðið. Allir vita að hún hefur ekki geð til að vinna með Vigdísi Hauks eða Sósíalistum. Hún gæti hins vegar sparkað Samfylkingunni út og tekið Sjálfstæðismenn inn og leitt nýjan meirihluta. Sjálfstæðismenn myndu sætta sig við hvað sem er, en Píratar þyrftu að fá veglega umbun í ráðum og nefndum.