Hingað til hefur Samfylkingin skipað sér sess sem einn helsti femínistaflokkur landsins, háheilagri í jafnréttismálum en bæði Vinstri græn og Viðreisnarfólk. Það er því einstaklega óheppilegt fyrir flokkinn að tveir af forystusauðunum á undanförnum árum hafi verið sakaðir um að áreita kvenfólk. Annars vegar Ágúst Ólafur Ágústsson og hins vegar Helgi Hjörvar.
Vegna hins síðarnefnda þurfti Samfylkingin að setja á laggirnar sérstaka siðanefnd, líkt og Þjóðkirkjan gerði þegar kvartanir vegna kynferðisbrota klerka byrjuðu að flæða inn. Ekki er loku skotið fyrir að fleiri mál af fjölþreifnum krötum kunni að dúkka upp.
Ljóst er að í báðum tilvikum hefði átt að upplýsa fyrr um málavexti. Því hefur forysta flokksins þegar brugðist kjósendum sínum. Ef Samfylkingin ætlar að halda trúverðugleika sínum í jafnréttismálum verður hún að taka hart og afgerandi á gerendunum og setja þá af sakramentinu.