Rétt eins og fyrirrennararnir í framkvæmdastjórastól Samtaka atvinnulífsins talar Halldór Benjamín Þorbergsson af mikilli ábyrgð. Að of miklar launahækkanir ógni stöðugleika og rýri kaupmátt til lengri tíma séð. Að nú séu viðsjárverðir tímar fram undan og við getum ekki treyst á fordæmalausan vöxt í ferðaþjónustunni til frambúðar. Svona tal kemur engum á óvart í sjálfu sér, en nú hefur slíkt tal enn minni slagkraft en vanalega. Því enginn er að hlusta á Halldór Benjamín.
Spjótum Drífu Snædal og hinnar nýju forystu verkalýðsins er ekki beint að honum. Þau hafa talað á þann veg að aðkoma ríkisins sé forsenda fyrir því að kjarasamningar náist. Nefna þau þá bótakerfið, skattkerfið og húsnæðismál í því samhengi. Þetta verða stóru átakalínurnar í vetur, milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar.