Staða Ólafs Ísleifssonar og Karls Gauta Hjaltasonar er nú orðin ómöguleg innan vébanda Flokks fólksins. Þeir sátu undir svívirðingum á formanninn, Ingu Sæland, og mótmæltu ekki. Hlutur Karls er sérstaklega alvarlegur í ljósi þess að hann tók þátt í að níða af henni skóinn.
Þeir tveir mynda helming af þingliði flokksins og ógna því heilindum flokksins og trúverðugleika. Inga hlýtur að óska eftir því að þeir segi af sér en ósennilegt er að sú verði raunin. Þeir geta heldur ekki leitað til Miðflokksins eftir allt það sem á undan er gengið.
Það liggur því beinast við að Ólafur og Karl gangi í Sjálfstæðisflokkinn. Ólafur hefur áður gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Hugsanlega gætu þeir þó þurft að ganga eyðimerkurgöngu sem óháðir þingmenn í nokkra mánuði á meðan rykið sest.