Vinstri græn sitja nú undir miklu ámæli fyrir að verja fjögurra milljarða króna lækkun á veiðigjöldum. Er þetta enn eitt málið sem fellur á flokkinn sem virðist ætla að verða blóraböggull fyrir allt sem aflaga fer hjá ríkisstjórninni.
Lilja Rafney, hin skeleggi þingmaður flokksins frá Vestfjörðum, hefur tekið það að sér að svara fyrir lækkunina. Meðal annars í hitaþætti hjá Agli Helgasyni. Þar talaði hún um að þetta væri ekki raunveruleg lækkun heldur „afkomutenging.“
Vafalaust hafa innmúraðir bætt afkomutengingu við orðaforðann til að nota á næstu vikum til að verja fjárlögin. Mun þetta sennilega ekki blekkja neinn. Lækkun er ekkert annað en lækkun.