Eftir að álrykið af Banksy-málinu er sest sitja ansi margir skömmustulegir eftir. Ljóst er að enginn kom vel frá málinu nema þá helst þeir sem sátu á hliðarlínunni. Héldu margir að verkið sem Jón Gnarr fékk að gjöf í borgarstjóratíð sinni væri tugmilljóna króna virði. Gerði hann lítið til að segja til um raunverulegt verðmæti verksins á sínum tíma en montaði sig af þessu „einstaka verki.“ Það kom í hausinn á honum núna.
Þeir sem vildu koma höggi á Jón Gnarr og stimpla hann sem þjóf litu hins vegar hjákátlega út þegar prentaða Banksy-álplatan var sett á slípirokkinn. Í því fólst staðfesting á verðleysi verksins. Hafa margir hælt Jóni fyrir förgunina og sagt hana listgjörning í sjálfu sér sem verður að teljast hæpin ályktun.
Eftir stendur að enginn kemur vel frá „Stóra Banksy-málinu“ nema þá karlinn á slípirokknum, hann stóð sig ágætlega.