Margir, þar á meðal Gylfi Magnússon, fyrrverandi ráðherra, hafa hins vegar bent á að Bretar myndu aldrei gera það, þeir myndu ekki vita hvar þeir ættu að byrja. Syndir þeirra og stríð eru það mörg.
Spurningin er sú hvort Íslendingar skuldi Bretum einnig afsökunarbeiðni, fyrir mun alvarlegra mál. Það er innrásir, dráp og þrælahald á tímum víkinganna. Nýleg DNA-rannsókn, sem Sunna Ebeneserdóttir hjá Háskóla Íslands gerði í samvinnu við Decode, sýndi fram á mikinn innflutning fólks frá Bretlandi og Írlandi, og sérstaklega kvenna.
Árið 2007 var greint frá því að Brian Mikkelsen, danski menningarmálaráðherrann, hefði beðist afsökunar á framferði víkinga í opinberri heimsókn til Dublin. Hann þvertók síðan fyrir að hafa beðist afsökunar á því. „Við getum ekki beðist afsökunar á því sem gerðist fyrir þúsund árum. Þannig hegðaði fólk sér í gamla daga.“