Orðið á götunni er að fjöldi hjúkrunarfræðinga hafi reiðst þegar nýundirritaður kjarasamningur var kynntur þeim. Í honum felast víst ekki þær breytingar sem hjúkrunarfræðingar vonuðust eftir og jafnvel í sumum tilvikum er um kjaraskerðingu að ræða þar sem ýmis fríðindi eru felld niður. Því hefur einnig heyrst að nokkrar líkur séu á því að samningurinn verði felldur.
Þessi kjarasamningur var undirritaður þann 10. apríl eftir langar og strangar kjaraviðræður. Samningar hjúkrunarfræðinga höfðu þá verið lausir í ár.
Frá því hafði verið greint að þolinmæði hjúkrunarfræðinga væri á þrotum, sérstaklega í ljósi þess álags sem þeir vinna við í dag á tímum heimsfaraldurs. Þó nokkrir hjúkrunarfræðingar höfðu lent í skerðingu kjara vegna hagræðingar í rekstri Landspítala er vaktaálagsauki var afnuminn. Hann var í kjölfarið framlengdur eftir að ríkið sætti harðri gagnrýni fyrir framkomu sína við þessa mikilvægu stétt.
Kjarasamningarnir sem undirritaðir voru þann 10. apríl munu vera á svipuðum nótum og aðrir samningar í samfélaginu og meðal annars má þar finna áherslu á styttingu vinnuvikunnar og mun vaktakerfið vera tekið til gagngerrar endurskoðunar.