Íslenskt mál á undir högg að sækja og því var það vel til fundið hjá örnefnanefnd að senda sveitarstjórnum á Íslandi bréf, þar sem mælst var til þess að farið væri varlega í að nota ensk nöfn á íslenskum stöðum. Síðustu ár hafa ferðaþjónustuaðilar einmitt verið gjarnir á að fara þessa leið, enda geta íslensku nöfnin oft verið löng og erfið í framburði. Sem dæmi má nefna Breiðamerkursand, en nú er hann ekki kallaður það lengur, heldur Diamond Beach, sem hljómar mun söluvænna. Reynisfjara gengur undir nafninu Black Sand Beach og gamla laugin á Flúðum heitir Secret Lagoon, svo fátt eitt sé nefnt.
Framtak Örnefnanefndar er vissulega gott, en hætt er við því að fáir fylgi tilmælum hennar – Diamond Beach er einfaldlega mun söluvænna en Breiðamerkursandur.