Orðið á götunni er að Óli Valur Steindórsson, eigandi Hlöllabáta, sé meðfjárfestir í nýjum pizza-veitingastað sem greint var frá á þessum vettvangi fyrir skömmu.
Þá var orðið á götunni að Þórarinn Ævarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Ikea og Dominos, kæmi að rekstrinum með Sigmari Vilhjálmssyni athafnamanni, en Þórarinn sver það af sér í viðtali við DV og hyggst leyfa blaðinu að birta af sér nektarmyndir reynist orð hans ekki sönn. Vonandi kemur ekki til þess.
Orðið á götunni segir að fyrsti staðurinn verði opnaður í Mosfellsbæ, þar sem Arion-banki var áður til húsa, en staðurinn mun vera hluti af California Pizza Kitchen keðjunni Bandarísku, en einnig stendur til að Hlöllabátar opni þar stað.
Mun Sigmar því fara í beina samkeppni við Blackbox pizza sem nýverið opnaði stað í Mosfellsbæ einnig, en meðal eigenda Blackbox er Jóhannes Ásbjörnsson, sem einnig rekur Shake&pizza, Keiluhöllina og Hamborgarafabrikkuna, sem hann stofnaði einmitt með Sigmari Vilhjálmssyni.
Orðið á götunni er að ekki sé eintóm hamingja með þessa tilhögun Sigmars í fyrrum herbúðum hans, því hún sé mögulega í trássi við samning sem hann gerði þegar Sigmar var keyptur út úr fyrirtækinu, þess efnis að hann kæmi ekki nálægt veitingarekstri í ákveðinn tíma, en Sigmar seldi hlut sinn í maí í fyrra.