Orðið á götunni er að einn maður óski þess heitast öðrum fremur að WOW air fari á hausinn. Illt er að gera einhverjum upp slíkar hugsanir, en auðveldlega er hægt að réttlæta það með þeim rökum að gjaldþrot WOW muni stuðla að bættri heilbrigðisþjónustu og lægri dánartíðni sjúklinga.
Vandamál Landspítalans hafa verið mörg undanfarin ár, en skortur á hjúkrunarfræðingum er eitt það alvarlegasta, sem leitt hefur af sér fækkun á opnum sjúkrarúmum og lokunum sérhæfðra bráðamóttaka. Allt með þeim afleiðingum að dánartíðni sjúklinga hefur aukist, sem og tíðni endurinnlagna, en samkvæmt rannsóknum er fylgni milli dánartíðni og skorti á hjúkrunarfræðingum, þar sem umönnun er ábótavant.
Og hvernig tengist þetta sennilegu gjaldþroti WOW air ?
Jú, hjúkrunarfræðingar streymdu til Skúla Mogensen í WOW air vegna lágra launa hjá Landspítalanum og gerðust flugfreyjur. Strax árið 2014 fór fimmti hver nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur til starfa sem flugfreyja, enda störfin á margan hátt svipuð; að bæta úr líðan fólks með vímugjöfum, ýmist í formi lyfja eða áfengis.
Nú, þegar dagar WOW virðast taldir, er því von á að einhverjar flugfreyjur fáist til starfa sem hjúkrunarfræðingar.
Orðið á götunni er að Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hugsi sér því gott til glóðarinnar.