Orðið á götunni er að í umræðunni um sanngjarna skattheimtu, nú þegar kynnt hefur verið þriðja skattþrepið og ákall er um það fjórða fyrir þá tekjuhæstu, sé vert að rifja upp dæmisögu sem ætlað er að setja innheimtu þrepaskipts skattkerfis í skiljanlegt samhengi.
Dæmisagan er eignuð David R. Kamerschen, prófessor í hagfræði við Háskólann í Georgíu, sem kennt hefur nemendum sínum hana um langt árabil, en kveðst þó ekki höfundur hennar.
Hún er til í ýmsum útgáfum, sem þykir henta hverju tilefni fyrir sig, en fjallar endranær um 10 vini sem ýmist borða saman eða drekka saman, og greiða fyrir herlegheitin eftir kúnstarinnar reglum, sem er samlíking við skattkerfið.
Dæmisagan er eitthvað á þessa leið:
Tíu menn höfðu þann sið að borða saman á veitingastað einu sinni í viku. Reikningurinn í hvert skipti var samtals 50.000 krónur. Mennirnir voru misvel stæðir og höfðu mjög mismiklar tekjur. Þeir ákváðu því að skipta reikningnum á milli sín á svipaðan hátt og skattar þeirra voru innheimtir. Fyrstu fjórir í hópnum borguðu ekkert, sá fimmti greiddi 500 krónur, sá sjötti 1.500, sá sjöundi 3.500, sá áttundi 6.000, sá níundi 9.000 krónur og sá tíundi og langríkasti borgaði 29.500 krónur.
Þetta fyrirkomulag var í fullri sátt allra í hádegisklúbbnum og þeir hittust einu sinni í viku glaðir í bragði þar til veitingamaðurinn ákvað eitt sinn að vera þeim góður. „Þar sem þið eruð fastir og góðir viðskiptavinir,“ sagði hann, „ætla ég að lækka reikninginn um 10.000 krónur.“ Þar með var máltíðin fyrir þessa tíu félaga komin í 40.000 krónur.
Nú skipti verðlækkun engu máli fyrir fyrstu fjóra í hópnum, þeir þurftu ekki frekar en fyrri daginn að taka upp veski sín. Hitt var aðeins flóknara, hvernig átti að skipta þessari 10.000 króna lækkun á milli hinna sex á sanngjarnan hátt. Félagarnir sáu í hendi sér að 10.000 deilt með sex er 1.666 krónur, sem þýddi að þeir númer fimm og sex fengju greitt fyrir að mæta í matinn.
Veitingamaðurinn stakk upp á að leysa málið með því að lækka hlut allra um svo til sömu prósentutölu, og var það samþykkt.
Greiðslan fyrir lækkaða reikninginn skiptist þá þannig að nú bættist fimmti maðurinn í hóp þeirra sem borguðu ekkert, sá sjötti greiddi 1.000, sá sjöundi 2.500, sá áttundi 4.500, sá níundi 6.000 og sá ríki númer tíu, 26.000 krónur í stað 29.500 áður.
Úti á gangstétt að máltíð lokinni fóru menn svo að bera saman gróða sinn vegna lækkunar veitingamannsins á reikningnum. „Ég fékk aðeins 500 kall af þessari 10.000 króna lækkun en hann fékk 3.500 krónur,“ sagði maður númer sex og benti á þann númer tíu. „Já, það er rétt,“ sagði númer fimm, ég sparaði líka bara 500 krónur. Það er ósanngjarnt að hann fái sjö sinnum meira en ég!“ Sá sjöundi tók undir með vinum sínum og hrópaði: „Þetta er alveg rétt, af hverju á hann að fá 3.500 en ég bara 1.000 krónur?“
Samstundis æptu þeir fjórir fyrstu í kór: „Bíðið hægir, við fengum ekki neitt. Dæmigert að kerfið fer illa með þá fátæku, á meðan þeir ríku verða alltaf ríkari.“
Við það sauð upp úr og þeir fyrstu níu lömdu þann númer tíu til að fá útrás fyrir reiði sína yfir óréttlæti heimsins.
Eins og gefur að skilja mætti sá tíundi því ekki í hádegisverðinn viku síðar, enda ekki lengur velkominn. Hann borðar nú einn í hádeginu og greiðir aðeins fyrir sinn skammt, sem er mun lægri upphæð en áður.
Hinir níu settust hins vegar niður og borðuðu saman. Þegar kom hins vegar að því að borga reikninginn áttuðu þeir sig á því að þá vantaði 26.000 krónur. Hver átti að borga það…?