Orðið á götunni er að forsvarsmenn Samherja gætu verið í vondum málum vegna uppljóstrana um meintar mútugreiðslur og undanskot í starfsemi sinni í Namibíu. Vafasamir viðskiptahættir fyrirtækisins munu líklega leiða til sakamálarannsóknar og ákæru í framhaldinu en saksóknari hefur þegar hafið skoðun á málinu.
Refsingin við að bera mútur á opinbera starfsmenn er allt að fimm ár.
Afstaða nefnist félag fanga. Formaður þess, Guðmundur Ingi Þóroddsson, benti á í færslu á Facebook, að Samherji hefði árið 2017, styrkt Afstöðu um 600 þúsund krónur þegar fyrirtækið greiddi fyrir breytingar á líkamsræktarsalnum og kaup á líkamsræktartækjum í fangelsinu á Akureyri.
„Eitthvað segir mér að þeir sjái ekki eftir því í dag. Ég hvet alla viðskiptamenn til að hugsa fram í tímann og muna að það getur verið gott að styrkja okkur á einhvern hátt 😅❤️“
segir Guðmundur glettinn.
Þess má geta að Samherji er með höfuðstöðvar sínar á Akureyri og forstjórinn er þar einnig með lögheimili.