Orðið á götunni er að nú sé lag að stórfækka ráðherraembættum. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð tók í vikunni við embætti dómsmálaráðherra, sem áður hét dóms- og kirkjumálaráðherra. Fyrir gegnir hún stöðu iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra.
Auðsýnt er að ráðherraembætti er ekki full vinna. Ætla má að hver ráðherrastóll sé um það bil 25 prósent vinna. Hægt sé að klára öll mánaðarverkefnin á einni viku og skella sér síðan í golf eða til Tene og hafa það gott fram að útborgunardegi. Þó að verkefnin séu fá þá er vitaskuld greitt upp í topp fyrir vinnuna.
Glöggt má sjá að Þórdís Kolbrún er duglegri og metnaðarfyllri en flestir kollegar hennar, því hún reynir að fylla upp í mánuðinn. Sumir þeirra vinna hálfa vinnu eins og Lilja Dögg sem er mennta- og menningarmálaráðherra. Sigurður Ingi er samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra. Ásmundur Einar félagsmálaráðherra sá að sér og bætti barnamálaráðherrastólnum við. Meðal letingja má nefna Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Þau hljóta að vera í Candy Crush þrjár vikur í mánuði.
Miðað við vinnugetu heilbrigðs starfsmanns ætti að vera hægt að fækka ráðherrum niður í þrjá og hlaða á þá eins og gert er við Þórdísi nú. Fram til ársins 1938 voru aðeins þrír ráðherrar á Íslandi, forsætis, fjármála og atvinnumála. Það gekk fínt.