Orðið á götunni er að nú sé lögð mikil áhersla á það hjá meirihlutanum í Ráðhúsi Reykjavíkur, að nota orðið „frávik“ um braggamálið. Heyra má þetta í orðræðu borgarstjóra, formanns borgarráðs, borgarfulltrúa meirihlutans, sem og ritmáli í tilkynningum borgarinnar.
Þar segir að unnið sé að úrbótum í kjölfar braggaskýrslunnar og má sjá orðið „frávik“ nefnt alls fjórum sinnum þegar hefði mátt nota „klúður“, „misferli“ eða spilling“ í staðinn. En vitaskuld eru slík orð ekki notuð á opinberu bréfsefni borgarinnar, enda felst í því staðfesting á að eitthvað misjafnt hafi átt sér stað, sem orðið „frávik“ gerir ekki.
Með þessari orðanotkun er auðvitað vísvitandi verið að gera lítið úr braggamálinu. Samkvæmt skilgreiningu er orðið „frávik“ aðeins lítið hliðarspor, undantekning þar sem vikið er frá einhverskonar reglu.
Í skýrslu innra eftirlits Reykjavíkurborgar um braggann er orðið „frávik“ alls notað 16 sinnum, en aldrei í sömu merkingu og Dagur B. Eggertsson, tilkynningar Reykjavíkurborgar, eða orðræða meirihlutans gerir. Í skýrslunni er orðið notað með mun þrengri hætti, við skilgreiningar á aðgreindum málum.
Nú er ekki verið að fullyrða að það sé reglan hjá borginni að fara langt fram úr kostnaðaráætlunum, en bragginn getur hvergi nærri talist vera frávik.
Orðið á götunni er að „frávik“ sé einmitt ekki rétta orðið, þar sem mýmörg önnur verkefni Reykjavíkurborgar hafa farið langt framúr upphaflegum kostnaði, auk þess sem ýmsum spurningum er enn ósvarað varðandi braggamálið, líkt og Hallur Símonarson, innri endurskoðandi borgarinnar, hefur sjálfur viðurkennt.
Í aðeins sex verkefnum á vegum borgarinnar hefur framkvæmdarkostnaður farið alls 1,348 milljónum fram úr áætlun.
Von er á skýrslu innri endurskoðunar um sum þeirra mála á næstu vikum.
Orðið á götunni er að sú skýrsla verði einnig í dekkri kantinum.