Orðið á götunni er að miklar breytingar séu framundan hjá Sjónvarpi Símans í samkeppninni um áhorfendur. Síminn og SkjárEinn sameinuðust í Sjónvarp Símans árið 2016.
SkjárEinn hafði verið í opinni dagskrá frá stofnun árið 1999, til ársins 2009, þegar tekin var upp áskriftarleið, fram til 2015.
Frá sameiningu hefur línuleg dagskrá verið opin öllum í Sjónvarpi Símans, en fyrir 5000 krónur á mánuði má kaupa aðgang að mýmörgum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum sem birtast ekki í opinni dagskrá, til dæmis í gegnum aðrar efnisveitur. Eru áskrifendur að slíkri þjónustu um 30.000 manns, sem telst nokkuð gott, en til samanburðar er Stöð 2 með um 20.000 áskrifendur.
Orðið á götunni er að Sjónvarp Símans undirbúi nú að læsa allri dagskrá sinni, nema þeim sem keypt hafa áskrift.
Telst þetta nokkuð djarft skref, þá helst gagnvart auglýsendum, sem nú eiga það á hættu að ná ekki til meirihluta þjóðarinnar í gegnum imbakassann.