Orðið á götunni er að uppi sé mikil óánægja í kvikmyndabransanum á Íslandi með þá ákvörðun RÚV að fara í samkeppni við einkaaðila í tækjaleigu og leigu á aðstöðu til sjónvarps- og kvikmyndagerðar.
Ekki síst í því ljósi að starfsemin virðist ólögleg.
RÚV-Stúdíó er ný eining Ríkisútvarpsins sem leigja mun út tækjabúnað og hið stóra myndver í Efstaleiti, enda nóg pláss, þar sem fréttastofan fékk sitt eigið myndver fyrir 184 milljónir í vikunni.
Baltasar Kormákur, leikstjóri Íslands, hefur þegar kvartað yfir RÚV til Samkeppniseftirlitsins, þar sem erfitt sé að keppa við verðin hjá RÚV, ríkisrisa á fjárlögum. Baltasar er eigandi stærsta myndvers landsins, GN Studios í Gufunesi, en ku vera afar ósáttur með innrás RÚV inn á þennan markað.
Ein forsenda þess að fréttastofa RÚV fékk nýtt myndver, sem var í raun löngu tímabært, var sú að leigutekjurnar af stóra myndverinu borguðu upp þær 184 milljónir sem fréttastofumyndverið kostaði, á komandi misserum og árum.
Hinsvegar eru öll slík áform nú í uppnámi, þar sem deilt er um lagalegan tilverurétt RÚV-Stúdíós.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur bent á að RÚV fari ekki eftir lögum um Ríkisútvarpið. Því beri að stofna dótturfélög sem haldi utan um samkeppnisrekstur, svo algerlega sé skilið á milli almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar. Þetta hafi átt að gerast fyrir 1. janúar síðastliðinn, en sé enn ekki orðið að veruleika.
Samkvæmt útvarpsstjóra er RÚV- Stúdíó vissulega ekki dótturfélag, heldur „afmarkað svið“ í skipulagi RÚV, líkt og auglýsingasalan.
„Við höfum hins vegar ekki nokkurn áhuga á að bjóða verð sem er undir því sem gerist og gengur. Ef einhver telur að eitthvað megi betur fara í þeim efnum þiggjum við einfaldlega ábendingar um það með þökkum,“
segir útvarpsstjóri.
Orðið á götunni er að innhólfið hjá útvarpsstjóra sé nú yfirfullt af ábendingum, meðal annars frá Baltasar Kormáki.