Orðið á götunni er að tilkynnt verði um nýja eigendur Íslenska gámafélagsins í vikunni, jafnvel strax á morgun. Forstjóri Íslenska gámafélagsins, Haukur Björnsson, hefur þegar látið af störfum hjá fyrirtækinu, samkvæmt tölvupósti sem starfsmenn fyrirtækisins fengu í gær. Er málið sagt allt hið undarlegasta, að starfslok forstjórans hafi borið að með svo skyndilegum hætti, en Haukur ku hafa sagt upp þegar fyrirtækið fór í söluferli. En nú þegar það ferli sé á lokametrunum, hafi Haukur fyrst tilkynnt starfsfólkinu um starfslok sín.
Starfsmenn hafa engar upplýsingar fengið um nýja eigendur, annað en að tilkynnt verði um þá fljótlega.
Fyrirtækið fór í söluferli í sumar og hefur fyrirtækjaráðgjöf Kviku haft umsjón með ferlinu. Þá er allt hlutafé Vélamiðstöðvarinnar, sem er dótturfyrirtæki Íslenska gámafélagsins, einnig til sölu.
Íslenska gámafélagið er í jafnri eigu Gufuness ehf. og fagfjárfestasjóðsins Auðar I, sem er í rekstri hjá Kviku. Jón Þórir Frantzon er stærsti hluthafi Gufuness og einnig stjórnarformaður Íslenska gámafélagsins.
Fyrirtækið var stofnað árið 1999 og starfa um 300 manns þar í dag víða um land. Eigið fé fyrirtækisins nam 1,7 milljörðum í lok árs í fyrra.