Orðið á götunni er að Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, verði ekki lengi atvinnulaus eftir að Efling – Stéttarfélag auglýsti eftir „drífandi ritsnillingi“ með reynslu af stjórnun kynningarmála. Engar menntunarkröfur eru gerðar til umsækjenda, en ljóst er að Gunnar Smári uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til umsækjenda.
Líkt og fjallað hefur verið um varð fréttaskýring Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu, um óeiningu á skrifstofu Eflingar í kjölfar kosningar á nýrri forystu stéttarfélagsins, tilefni þess að Gunnar Smári sagði Sjálfstæðisflokkinn og skósveina hans koma í veg fyrir að hann fengi nokkurs staðar vinnu, eða verkefni við hæfi.
Í fréttaskýringu Agnesar var óeiningin á skrifstofu Eflingar sögð eiga skýringar að rekja til þess að reikningur frá eiginkonu Gunnars Smára hefði ekki verið samþykktur samstundis af fjármálastjóra Eflingar. Í kjölfarið sakaði Gunnar Smári fjármálastjórann um spillingu og vandaði henni ekki kveðjurnar.
Fáir ef einhverjir hafa skrifað meira um málefni verkalýðsins og hina lægst launuðu í þjóðfélaginu undanfarið en Gunnar Smári. Studdi hann einnig Sólveigu Önnu Jónsdóttur í formannskjöri Eflingar, sem gæti komið sér vel ef hann kýs að sækja um, enda virðist starfið klæðskerasniðið að hans hæfileikum.