Orðið á götunni er að nýjar hrunsögur muni líta dagsins ljós í uppgjörsþætti Kastljóssins, 10 ár frá hruni, sem sýndur verður á morgun á RÚV. Af miklu er að taka, enda þátturinn heilar 90 mínútur, þar sem margar helstu persónur og leikendur hrunsins rifja upp atburðina örlagaríku frá 2008.
Ekki þáðu þó allar stærstu stjörnur hrunsins boð Kastljóssins um þá upprifjun. Útrásarvíkingarnir svokölluðu kusu að horfa á þáttinn heima og Davíð Oddsson er sagður hafa hundsað öll skilaboð og fyrirspurnir sem borist hafa frá Efstaleitinu.
Staksteinahöfundur Morgunblaðsins virðist þó sármóðgaður yfir því í dag, að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, sérlegum erindreka Davíðs Oddssonar, hafi ekki verið boðið í þáttinn en þess í stað hafi Jóni Ólafssyni, vinstriprófessor, verið boðið að ræða skýrslu Hannesar í umræðuþætti.
Orðið á götunni er hinsvegar að Geir H. Haarde muni greina frá sinni reynslu.