Orðið á götunni er að hluti Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum sé að íhuga sérframboð gegn Elliða Vignissyni bæjarstjóra og samherjum hans. Vakin hefur verið athygli á því að Elliði beitti sér ekki fyrir því að það yrði haldið prófkjör í Vestmannaeyjum í fyrsta sinn í 28 ár, þvert á móti er segja andstæðingar hans að Elliði hafi beitt sér gegn prófkjöri og smalað á fund fulltrúaráðs í vikunni til að koma í veg fyrir að almennir Sjálfstæðismenn í bænum gætu kosið á lista flokksins. En eins og flestir vita þá er oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í þessu 4.200 manna bæjarfélagi ígildi bæjarstjóra.
56 sitja í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og helmingur þeirra kaus gegn prófkjöri. Elís Jónsson, sem ætlaði að taka þátt í prófkjöri í Vestmannaeyjum, benti á í útvarpsviðtali í gær að þegar skoðað væri hverjir þessir 28 eru þá væru það ættingjar og samstarfsfólk bæjarstjórans, hafði Elís það á orði að Elliði væri búinn að reisa múr í kringum sig og þeir sem færu gegn honum væru settir úr af sakramentinu.
Ef þetta kemur allt heim og saman þá er stór hluti bæjarbúa tilbúinn að losa sig við Elliða og fólkið í kringum hann. Hefur þar nafn Írisar Róbertsdóttur grunnskólakennara helst verið nefnt sem hugsanlegur bæjarstjóraframbjóðandi gegn Elliða. Í könnun MMR frá því í nóvember síðastliðnum vildu 34,9% kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 7,7% Eyjalistann, 14,9% eitthvað annað og heil 39,5% voru óákveðnir. Ef lagðar eru saman prósentutölurnar þá eru heil 54,4% tilbúin að kjósa eitthvað annað en Sjálfstæðisflokk Elliða og Eyjalista félagshyggjumanna. Stofnað hefur verið til framboð af mun minna tilefni og því er ekki skrýtið að hluti Sjálfstæðismanna sé að íhuga sérframboð.