Orðið á götunni er að siðferðið í stjórnmálum á Íslandi fari batnandi með degi hverjum. Hvort bankahrun, GRECO skýrsla, eða fjölmiðlar hafi þar eitthvað að segja skal ósagt látið, en gaman er að gleðjast yfir litlum áfangasigrum í þessum efnum.
Líkt og fjallað hefur verið um í fréttum eru tengsl Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, töluverð. Kristján er fyrrum stjórnarformaður fyrirtækisins og hefur tekið nokkra túra fyrir Samherja sem sjómaður, samhliða þingmennsku, líkt og getið er um í hagsmunaskráningu ráðherrans. Þá er þeir Kristján og Þorsteinn sagðir ágætis vinir sem þekkst hafi síðan þeir voru báðir ungir menn. Við það er ekkert að athuga, enda lítið land og viðbúið að ráðherrar þekki áberandi menn úr viðskiptalífinu.
Orðið á götunni er að Kristján Þór hafi ekki sótt glæsilega árshátíð Samherja um helgina, þar sem flogið var með alla starfsmenn fyrirtækisins, til sjós og lands, í fimm flugvélum er fyrirtækið leigði, til Póllands. Einhverjum hefði kannski þótt fréttnæmt ef Kristján hefði sótt árshátíðina og allskyns spurningar vaknað um hver borgaði ferðalagið, skattgreiðendur, Samherji, eða Kristján sjálfur. En sem betur fer þarf ekki að spyrja að slíkum spurningum, þar sem Kristján Þór fór ekki til Póllands.