Orðið á götunni er að ekki hafi öllum af þeim 14 framboðum sem ætla sér að bjóða fram í Reykjavík í næstu borgarstjórnarkosningum, verið boðið á málþing sem Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur standa fyrir á laugardaginn í Spennustöðinni, hvar spurningum íbúa verður svarað af frambjóðendum. Alls tíu flokkar hafa boðað komu fulltrúa síns flokks á málþingið, en hvergi bólar á fulltrúum Sósíalistaflokksins, Kvennaframboðsins, Íslensku þjóðfylkingarinnar og Frelsisflokksins.
Fundarstjóra málþingsins, Helga Seljan, fréttamanni á RÚV er þó vorkun, enda vart hægt að hafa undan við að fylgjast með tilurð nýrra framboða, sem spretta upp eins og gorkúlur þessi dægrin.
Orðið á götunni er að hinu nýja femíníska kvennaframboði verði hinsvegar ekki boðið, þar sem engin hefur viljað bera ábyrgð á því, en Sóley Tómasdóttir sór það af sér í færslu á Facebook og mátti ráða í orð hennar að nafnleysi framboðsins væri með ráðum gert, hin breiða kvennafylking myndi stíga fram og kynna sig þegar það hentaði þeim.