Orðið á götunni er að hart sé tekist á innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um fyrirkomulag á vali á framboðslista flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hefur samþykkt tillögu um val á framboðslista flokksins í Reykjavík til borgarstjórnarkosninganna næsta vor.
Tillagan kveður á um að haldið sé opið prófkjör um oddvita listans, en uppstillingarnefnd, kjörin af tæplega tvö þúsund meðlimum fulltrúaráðsins, ákveði aðra frambjóðendur.
Fyrir Verði fer Gísli Kr. Björnsson lögmaður. Í stjórninni, sem hann veitir forystu, sitja formenn allra sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík auk annarra sem kjörnir eru á aðalfundi Varðar. Tillagan var samþykkt með 19 atkvæðum, án mótatkvæða, á stjórnarfundi á dögunum.
Helstu rökin fyrir henni eru þau, að erfiðlega gangi að fá nýtt hæfileikafólk til að taka þátt í prófkjöri, auka þurfi breidd á framboðslistanum, þar sem hann geti meðal annars endurspeglað búsetu í ólíkum hverfum borgarinnar og tryggt ákveðna endurnýjun. Undirliggjandi er ótti margra sjálfstæðismanna við enn eitt kjörtímabilið í minnihluta, ef ekki verði gripið til róttækra aðgerða.
Athygli vekur að félag sjálfstæðiskvenna er ósátt við tillöguna nú, enda þótt Hvöt hafi jafnframt harmað niðurstöðu undanfarinna ára í prófkjörum og farið fram á breytingar á framboðslistum eftir á.
En Gísli Kr. Björnsson fær þungavigtarstuðning í grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem Bessí Jóhannsdóttir stingur niður penna, en hún hefur verið áhrifakona í Sjálfstæðisflokknum í borginni um áratugaskeið; formaður Hvatar lengi vel og varaþingmaður, svo dæmi séu tekin.
Bessí hjólar í grein sinni í Arndísi Kristjánsdóttur, formann sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar, og skrifar:
Ef fulltrúaráðið samþykkir ekki tillöguna er veruleg hætta á því að Sjálfstæðisflokkurinn þurrkist út í Reykjavík í kosningum í vor eða í þar næstu borgarstjórnarkosningum, þótt höfuðborgin hafi á árum áður verið höfuðvígi flokksins í meira en sex áratugi.
Og hún bætir við:
„Finnst Arndísi lýðræðislegt að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík bjóði fram lista þar sem kannski ein eða engin kona verður í fyrstu fimm efstu sætunum, enginn fulltrúi ungs fólks né eldri borgara og enginn fulltrúi efri byggða borgarinnar, sem þó eru í miklum meirihluta borgarbúa, s.s. Breiðholts, Árbæjarhverfis, Seláshverfis, Norðlingaholts, Grafarvogs, Grafarholts eða Úlfarsárdals, ef niðurstaða prófkjörs verður sú? Ætlar hún þá að una sínu beina lýðræði, eða ætlar hún að heimta það aftur að kjörnefnd „leiðrétti“ listann, eins og hún og Hvöt gerðu eftir opið prófkjör til alþingiskosninganna í fyrra?“
Og lokaorð Bessíar eru þessi:
Ætlar nú Arndís að bjóða einstaklingum að eyða milljónum í prófkjör og breyta síðan reglunum eftir á? Já, reyndar! Því ef þú hleypur eftir duttlungum fjöldans og breytir stjórnmálaskoðunum þínum eins og Parísartískan breytist, frá vori til hausts, þá fyrst ertu kominn út á verulega hálan ís.