Orðið á götunni er að tilvistarvandi Samfylkingarinnar sé flestum kunnur, enda hefur flokkurinn beðið afhroð tvennar kosningar í röð og þurrkaðist út á Suðvesturhorninu sl. haust — fékk engan þingmann kjörinn í Kraganum eða höfuðborginni.
Ýmsir innan flokks og utan hafa komið með skýringar á fylgisleysi Samfylkingarinnar, staðnæmast þar margir við eilíf innanhússátök. Aðrir segja að flokkurinn hafi færst allt of langt til vinstri. Stærstur hluti kjósenda sé á miðjunni.
Það varð líklega til að staðfesta endanlega þessa kenningu, að Oddný Harðardóttir, fv. formaður Samfylkingarinnar, biðlaði fyrir páska til Gunnars Smára Egilssonar og Mikaels Torfasonar um að stofna ekki Sósíalistaflokk Íslands, enn einn vinstri flokkinn. Þeir ættu frekar að finna kröftum sínum viðnám innan Samfylkingarinnar.
Orðrétt sagði Oddný:
Samfylkingin er með góða innviði út um allt land þar sem borin er uppi nákvæmlega sama stefna og þið boðið. Ekki skemmta skrattanum enn einu sinni með stofnun flokks á vinstrivængnum. Sameinuð erum við sterk en sundruð höfum við lítil áhrif og höfum ekki afl til að hreyfa við stóru málunum sem hugsjónir okkar brenna fyrir. Verum skynsöm, verum saman og göngum skipulögð til verka!
Það var og. Orðið á götunni er að margir óánægðir Samfylkingarinnar hafi orðið niðurlútir yfir þeim ummælum formannsins fyrrverandi, að stefna Samfylkingarinnar sé nákvæmlega sú sama og nýs Sósíalistaflokks. Þannig að Samfylkingin er sósíalistaflokkur? Kannski er þar komin skýring á hinu mikla fylgistapi flokksins. Hann hætti að verða breið regnhlíf á miðjunni og fór þess í stað í keppni við VG um að vera mesti vinstriflokkurinn á jaðrinum.
Það var svo til að kóróna niðurlæginguna, að Gunnar Smári svaraði Oddnýju strax og vildi ekkert með hana hafa:
Samfylkingin er mesta eyðingarafl vinstursins og varð völd að stórkostlegum skaða. Fólk á ekki að tala sameiningu fram yfir baráttuna, moðið í staðinn fyrir stefnuna og undanhaldið í staðinn fyrir sóknina. Auðvitað má fólk gera það, það fer þá bara í Samfylkinguna. En Sósíalistaflokkurinn verður fyrir hitt fólkið.
Og meðan þá öllu þessu stóð heyrðist ekki bofs í formanni Samfylkingarinnar, Loga Einarssyni.