Orðið á götunni er að formennska Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í Viðreisn eigi sér talsvert lengri aðdraganda en komið hefur fram til þessa. Stuðningsmenn Benedikts Jóhannessonar segja í hljóði að formannsskiptin hafi verið í gerjun í allt sumar og tímasetningin nú sé aðeins tækifærismennska af hálfu Þorgerðar Katrínar og fylgjenda hennar.
Heyrst hefur að Guðmundur Kristján Jónsson aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar og Heiða Kristín Helgadóttir eiginkona hans hafi ásamt fleirum innan flokksins unnið að því að gera Þorgerði Katrínu að formanni í nokkurn tíma. Upphaflega átti að gera atlögu að Benedikt á landsþingi flokksins en boðun kosninga setti óvænt strik í reikninginn. Ekki var hægt að gera ráð fyrir að Viðreisn myndi lifa af kosningarnar þannig að það þurfti að hafa hraðar hendur til að steypa Benedikt. Dræmt fylgi í skoðanakönnunum var svo notað til að bola stofnanda flokksins úr formannsstólnum.
Margt er enn á huldu varðandi fund Viðreisnar þar sem ákveðið var að Þorgerður Katrín tæki við. Léttur yfirlestur yfir samþykktir flokksins sýnir að ákvörðunin var tekin án mikillar umhugsunar enda stendur skýrum stöfum að kosning formanns fari fram á landsfundi og að formaður og varaformaður skulu ekki vera af sama kyni. Einnig skýtur það skökku við að Jóna Sólveig Elínardóttir varaformaður skyldi ekki verða formaður við afsögn Benedikts, líkt og gerðist í tilviki Loga Einarssonar sem tók við sem formaður Samfylkingarinnar við afsögn Oddnýjar Harðardóttur í fyrra.
Nú á bara eftir að koma í ljós hvort Þorgerði Katrínu takist að bjarga flokknum eða hún sitji uppi með Svarta-Pétur.