Orðið á götunni er að samfelldur lífróður blasi við hjá ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem tekur formlega við völdum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Það er vægast sagt óvenjuleg staða, því oftast fá nýir stjórnarherrar einhverjar vikur í hveitibrauðsdaga til að koma sér inn í hlutina áður en fjölmiðlar og stjórnarandstaðan byrja með sitt aðhald.
Hin nýja ríkisstjórn styðst aðeins við eins manns meirihluta og í valdakjarna Sjálfstæðisflokksins eru margir mjög ánægðir með útkomuna úr samningaviðræðum við Bjarta framtíð og Viðreisn, að því er varðar stjórnarsáttmálann og fjölda ráðherrastóla. En í þingflokki Sjálfstæðisflokksins logar allt stafnanna á milli út af niðurstöðu um ráðherraskipan sem kynnt var í gærkvöldi.
Venjulega fer hljótt um slíkt innan valdaflokks eins og Sjálfstæðisflokksins, en með yfirlýsingu Páls Magnússonar, oddvita flokksins í Suðurkjördæmi, um að hann hefði ekki stutt tillögu formanns um ráðherraskipan, má ljóst vera að friðurinn er úti. Margir fleiri en Páll eru hundóánægðir og það eru vond tíðindi fyrir ríkisstjórn með eins manns meirihluta.
Páll vann stórsigur í Suðurkjördæmi, er oddviti og fær ekki ráðherrastól. Á sama tíma er Unnur Brá Konráðsdóttir gerð að forseta Alþingis, en henni var afdráttarlaust hafnað í prófkjöri flokksins sl. haust og hún uppskar mikla reiði flokkssystkina sinna með því að kjósa með þingrofi í tengslum við átökin um afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Verðlaun hennar eru ígildi ráðherrastóls og skilaboðin til annarra þingmanna hljóta að vera þau að það borgi sig að berja í borðið og skapa sér sérstöðu. Viðbúið er að ýmsir þingmenn láti ekki segja sér slíkt tvisvar.
Vitaskuld þurfti formaður Sjálfstæðisflokksins að horfa til kynjasjónarmiða við ákvörðun sína, en þau virðast ekki hafa vafist fyrir honum einmitt í hans eigin kjördæmi, er hann valdi annan karlmann, Jón Gunnarsson, til að verða ráðherra.
Haraldur Benediktsson var oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og hann verður ekki heldur ráðherra, þótt flokkurinn hafi unnið stórsigur og hann sé fyrsti þingmaður kjördæmisins.
Brynjar Níelsson er starfandi oddviti í sínu Reykjavíkurkjördæmi, þar sem Ólöf Nordal situr ekki á þingi af heilsufarsástæðum. Brynjar er ekki ráðherra, heldur Sigríður Andersen, þingmaður sem var mun neðar á lista en hann.
Þá er ritari Sjálfstæðisflokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ekki ráðherra heldur.
Orðið á götunni er að fullt starf og rúmlega það verði á næstunni að halda þingflokki Sjálfstæðismanna í lagi gagnvart hinni nýju ríkisstjórn. Vitað mál er að ýmsir eru hundfúlir og líklegir til að spila sóló. Hvort stjórnarsamstarfið lifir það af, á eftir að koma í ljós.