Orðið á götunni er að fáum (nema kannski Pírötum) hafi komið á óvart að Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hafi skrifað í dag undir skipunarbréf fimmtán nýrra dómara við Landsrétt.
Á hinn bóginn hafa margir staldrað við yfirlýsingu forseta, sem hann sendi frá sér þar sem hann skýrði frá undirritun skipunarbréfanna.
Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur gerir þetta að umtalsefni á fésbók og bendir á að yfirlýsing forseta Íslands feli í sér nýmæli í meðferð forsetavalds.
„Forseti rannsakar málsatvik og ákveður að Alþingi hafi fylgt lögum á réttan hátt. Þetta virðist vera nýtt úrskurðar- og eftirlitshlutverk og forseti Íslands kveður upp skriflegan rökstuddan dóm,“ segir Kristrún og bendir á að forsetinn segi í úrskurði sínum:
Með hliðsjón af öllum þeim málavöxtum sem hér hafa verið raktir komst ég að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu ekki átt sér stað við undirbúning og tilhögun atkvæðagreiðslunnar 1. júní og hún hefði verið í samræmi við lög, þingvenju og þingsköp.