fbpx
Mánudagur 10.febrúar 2025

Hvað gera nú sjómenn?

Orðið
Sunnudaginn 19. febrúar 2017 09:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að þótt samkomulag hafi náðst í deilu sjómanna og útvegsmanna fari því fjarri að málið hafi endanlega verið til lykta leitt. Eftir er að sjá úrslit úr atkvæðagreiðslu sjómanna og að fenginni reynslu er betra að fagna ekki um of fyrirfram.

Kostirnir í stöðunni eru tveir:

A.    Sjómenn samþykkja samninga í atkvæðagreiðslu, verkfallinu lýkur í kvöld og flotinn fer á sjó. Reynt verður að bjarga loðnuvertíðinni fyrir horn og veiða íslenska kvótann. Lítill tími er til stefnu en gríðarmikið í húfi.

B.    Sjómenn fella samninginn. Ef þeir gera það þá verður  það mikill áfellisdómur fyrir sjómannaforystuna sem verður gerð afturreka með kjarasamning þriðja sinni af sínum eigin mönnum. Þar mun væntanlega koma til uppgjörs og forystumenn geta ekki farið að kemba hærurnar í stólum sínum.

Með því að fella samninginn skilja sjómenn einnig pólitíska sprengju eftir í fangi ríkissjórnar sem mörgum þeirra þykir hafa sýnt kjaramálum sjómannastéttarinnar kaldlyndi og afar lítinn áhuga. Ýmsir stjórnarþingmenn hafi sjálfir gagnrýnt framgöngu sjávarútvegsráðherra, t.d. Brynjar Níelsson, Ásmundur Friðriksson og Páll Magnússon.

Það getur orðið mjög afdrifaríkt fyrir stjórnmálamennina og ríkisstjórnarliðana sérstaklega, og kennt þeim að sjómannastéttin er nokkuð sem menn ættu að forðast að fá upp á móti sér. Sjómenn sem margir hverjir virðast afar óánægðir með samninginn gætu hugsað sem svo að þarna komi vel á vonda. Betra sé að láta stjórnmálamennina setja lög á verkfallið og láta þá sitja þannig uppi með skömmina, heldur en að samþykkja vondan kjarasamning.

Hvað mun gerast ef samningarnir verða felldir? Orðið á götunni er að lagasetning verði þá ekki umflúin. Ríkisstjórnin leggur fram lög á verkfallið á Alþingi á mánudag. Lagasetningin verður væntanlega umdeilt hitamál í þingsalnum og stjórnarmeirihlutinn er afar naumur. Búast má við umræðum þar sem stjórnarandstaðan notar tækifæri til að koma höggi á stjórnina.

Sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin hafa þegar sætt gagnrýni fyrir að hafa staðið sig slælega í kjaradeilunni . Stjórnin þykir hafa mætt illa undirbúin til leiks þegar kallað var eftir því að ríkið liðkaði til í samningum meðal annars með því að gera breytingar í skattamálum. Ráðherrar stjórnarinnar hafa reynt að spila á það kort að ríkisvaldið eigi ekki að blanda sér í kjaradeilur en myndu samt gera það hér með því að leggja fram frumvarp um lög á sjómenn í stað þess að deiluaðilar færu aftur að samingaborðinu.

Það hefur líka eflaust þegar hleypt illu blóði í marga að sjávarútvegsráðherra hefur sagt skýrt að hún sé með lögin tilbúin í ráðuneyti sínu. Þetta þýðir að gengið var til samninga undir hótunum um lög.

Búast má við því að krafist verði nafnakalls við atkvæðagreiðslu um lögin í þinginu. Þá mun koma skýrt fram hvernig einstakir þingmenn greiddu atkvæði í málinu.

Náist ekki meirihluti fyrir lögum í þinginu þá eru dagar ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar væntanlega taldir. Samþykki þingið hins vegar lög á sjómenn þá verður brunað með þau á Bessastaði til að láta forsetann undirrita svo þau taki gildi strax svo flotinn fari til veiða.

Sjötti forseti lýðveldisins hefur hingað til setið átakalaust á stóli forseta í rúma sex mánuði og fengið á sig yfirbragð „Guðna hins góða. “ Með lögum á kjaradeilu sjómanna og útvegsfyrirtækja mun Guðni Th. Jóhannesson þar með verða að gera upp hug sinn um það hvort hann sé reiðubúinn að skrifa undir lög á vinnandi menn sem hafa ítrekað fengið slíkan gjörning á sig, setið án kjarasamninga árum saman en eygja nú von til þeirra sjálfsögðu mannréttinda.

Verði lög sett á sjómenn munu margir líta á það sem illvirki gegn hetjum hafsins. Reiði og fordæming stórs hluta þjóðarinnar vofir yfir. Margir munu eflaust skora á forsetann að neita því að skrifa undir lög á sjómenn. Mun forsetinn með Bjarna Benediktsson að baki sér fallast á að halda um sverðið þegar það fellur á háls sjómannastéttarinnar?

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is – fyllsta trúnaðar gætt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Hefur mennsk losun gróðurhúsalofttegunda lítil sem engin áhrif á hitastig jarðar?

Hefur mennsk losun gróðurhúsalofttegunda lítil sem engin áhrif á hitastig jarðar?
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

,,Vítaspyrna? Ég neita að tala um dómgæsluna“

,,Vítaspyrna? Ég neita að tala um dómgæsluna“
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Ný rannsókn – Fallegt fólk þénar meira

Ný rannsókn – Fallegt fólk þénar meira
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Enski bikarinn: Liverpool úr leik eftir mjög óvænt tap

Enski bikarinn: Liverpool úr leik eftir mjög óvænt tap
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

„Mannslíf eru dýrmætari en tré!“

„Mannslíf eru dýrmætari en tré!“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Þess vegna ættirðu alls ekki að naga neglurnar – Sjáðu myndbandið

Þess vegna ættirðu alls ekki að naga neglurnar – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Skemmtilegt myndband sýnir sundkennara kenna nemendum í Reykjavík sundtökin fyrir rúmum 70 árum

Skemmtilegt myndband sýnir sundkennara kenna nemendum í Reykjavík sundtökin fyrir rúmum 70 árum
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Jafnaði ótrúlegt met um helgina – Ósigrandi á útivelli

Jafnaði ótrúlegt met um helgina – Ósigrandi á útivelli