Orðið á götunni er að staðan sé nokkuð undarleg þegar kemur að hlutabréfum í Icelandair Group og gengi þeirra í Kauphöll Íslands.
Kunnara er en frá þurfi að segja, að bréf í Icelandair hafi fallið mikið í verði upp á síðkastið og spenna fyrir komandi aðalfundi félagsins, þar sem líklegt er að einhverjir stjórnarmenn yfirgefi sviðið og aðrir komi í þeirra stað.
Skýrt hefur verið frá ýmsum aðilum sem eru að safna bréfum í aðdraganda fundarins. En nú ber svo við, að fáir eru á seljendahliðinni. Ekki virðast margir tilbúnir að selja á núverandi gengi og alls ekki þeir sem eiga stórar stöður í félaginu.
Sérfróður aðili á markaðnum sagði í gær, að afkomuviðvörun á dögunum hafi réttlætt ákveðna verðlækkun á bréfum í félaginu, en ekki núverandi gengi. Félagið sé gríðarlega fjársterkt og eigi miklar eignir. Það skýri þá stöðu sem komin er upp, að hluthafar haldi nú að sér höndum og vonist eftir því að landið fari að rísa á ný.