Orðið á götunni er að skrítin stemning sé kringum myndun hægri stjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Flestir eru sammála um að fátt annað sé í stöðunni en að flokkarnir þrír myndi ríkisstjórn, þótt meirihlutinn yrði aðeins einn þingmaður, en sannarlega verður ekki sagt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu spenntir fyrir verkefninu, eins og Eyjan benti á í fréttaskýringu í gærkvöldi þar sem sagt var frá mjög erfiðum þingflokksfundi.
Í ríflega tvo mánuði hafa Sjálfstæðismenn talað fyrir því að fá Vinstri græn til liðs við sig og Framsóknarflokkinn án árangurs. Það er ekki fyrr en nú á allra síðustu dögum að áhrifafólk innan VG ljær máls á slíku, en vilja þá hafa Samfylkinguna með. Ekki er öllum ljóst hvort hugur fylgir máli, enda skoðanir mjög skiptar innan VG, og þess vegna er langlíklegast að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra í samstarfi með Benedikt frænda sínum Jóhannessyni og Óttari Proppé — jafnvel fyrir vikulok.
Á lokaðri spjallrás VG hefur mátt lesa undanfarna daga áhyggjur manna af því að flokknum verði kennt um þá stjórn sem er nú verið að mynda og kennd hefur verið við hægri ásinn í stjórnmálunum.
En þetta er ekkert í fyrsta sinn sem stemningin er svona. Það þarf að mynda ríkisstjórn og búið er að reyna marga kosti. Árið 1978 var löng stjórnarkreppa sem endaði með því að Ólafur Jóhannesson myndaði ríkisstjórn sem lítil stemning var um.
Í Völundarhúsi valdsins, þeirri ágætu bók eftir Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, sem allir handhafar stjórnarmyndunarumboðs hafa fengið að gjöf, er vitnað í þessa vísu Páls Péturssonar sem hann orti þegar þetta seinna ráðuneyti Óla Jó var myndað:
Við förum í róður, þótt fleyið sé lekt
og fram undan leiðinda starf.
Nú gerum við allt sem er ómögulegt
en ekkert af hinu, sem þarf.
Sú ríkisstjórn lifði ekki nema fáeina mánuði og svo var kosið aftur. Ætli það sama gerist nú?