Orðið á götunni er að framboð lögmannsins og landsliðsfyrirliðans fyrrverandi Guðna Bergssonar hleypi óvæntri spennu í kjörið um formannsembættið í Knattspyrnusambandi Íslands á næsta ári.
Fyrir á fleti er Geir Þorsteinsson sem verið hefur formaður og þar á undan framkvæmdastjóri KSÍ í tuttugu ár, eða frá því hann hætti sem framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar KR.
Bæði Geir og Guðni eiga sér harða stuðningsmenn og því er ekki að leyna að ýmsir telja kominn tíma á breytingar í forystu sambandsins. Á hinn bóginn benda margir réttilega á, að Geir standi nú á hátindi ferils síns, KSÍ sé að ljúka besta ári í sögu sambandsins þar sem landslið karla sló m.a. í gegn í úrslitakeppni EM og að fáránlegt sé við slíkar aðstæður að skipta um mann í brúnni.
Orðið á götunni er að þótt Guðni sé væntanlega mun vinsælli og þekktari meðal þjóðarinnar, eftir farsælan atvinnumannaferil hjá m.a. Tottenham og Bolton og svo mörg ár sem fyrirliði landsins, þá muni slíkt væntanlega duga skammt í kjörinu sjálfu. Þar koma saman fulltrúar aðildarfélaganna innan KSÍ, knattspyrnudeildir af öllu landsins, fólk sem unnið hefur náið með Geir árum og jafnvel áratugum saman.
Aukinheldur hefur nú verið upplýst, að öll knattspyrnusambönd Norðurlandanna hafa ákveðið að tilnefna Geir Þorsteinsson sem sinn fulltrúa í stjórnarkjöri Alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA í apríl á næsta ári. Forsenda fyrir því að Geir næði kosningu í slíkt embætti er að hann yrði áfram formaður KSÍ eftir ársþing þess í janúar. Að komast í stjórn FIFA gæti haft mikla þýðingu fyrir íslenska knattspyrnu, eins og Geir mun væntanlega útlista rækilega fyrir íslenskum knattspyrnuforkólfum næstu daga.
Það hangir því margt á spýtunni og verður spennandi að sjá hver framvindan verður næstu vikurnar.