Samkvæmt goðsögunni skóp Prómeþeifur hina fyrstu menn úr leir en þá skorti ráð til að verjast óblíðum náttúruöflum. Prómeþeifur brá því á það ráð að ræna eldinum frá Ólympsguðum og færa mannkyni. Í refsingarskyni sendi Seifur hinu nýskapta mannkyni konu sem nefnd var Pandóra. Niður til mannheima hafði hún meðferðis öskju fulla af sóttum og meinum. Hún vissi sem var að halda yrði öskjunni kirfilega lokaðri en eðlislæg forvitni Pandóru var svo mikil að hún lauk henni upp og hleypti pestunum út. Síðan þá hafa plágur herjað á mennina og margar borist úr austri.
Að framan var hin fyrsta kona nefnd. Önnur kona er Kristina Schröder. Hún sat á þýska Sambandsþinginu fyrir flokk kristilegra demókrata árin 2002–2017 og var ráðherra málefna fjölskyldna, aldraðra, kvenna og ungmenna í ríkisstjórn Angelu Merkel kanslara árin 2009–2013. Hún er nú varaformaður Denkfabrik für neue bürgerliche Politik sem er hugveita um borgaraleg málefni.
Þegar þess var minnst fyrir skemmstu að hálfur áratugur var liðinn frá því að gripið var til hinna umfangsmiklu hafta vegna veirunnar frá Wuhan birtist í Welt gagnmerk grein Kristinu Schröder, þar sem hún tilgreinir fimm lærdóma sem draga verði af ráðstöfunum þýskra stjórnvalda vegna farsóttarinnar og leyfi ég mér að fullyrða að allt megi það heimfæra upp á aðgerðir ráðamanna hér heima að breyttu breytanda. Pólitísk rétthugsun var raunar slík fyrir um hálfum áratug að amast var við því að veiran væri kennd við upprunastað sinn og réð þar sjálfsagt miklu undirlægjuháttur vestrænna leiðtoga gagnvart stjórnarherrunum í Peking. Nú blása blessunarlega frjálslegri vindar og vel við hæfi að rætt sé um veiruna frá Wuhan.
Schröder segir færa hefði mátt rök fyrir samkomutakmörkunum og höftum á ferða- og atvinnufrelsi en eftir á að hyggja blasi við að afskipti hins opinbera af borgurunum hafi tekið út yfir allan þjófabálk. Hún rifjar upp að framan af hafi lönd í suðurhluta álfunnar kosið að grípa til mun harðari aðgerða en ríkin í norðri. Þegar höftin voru fyrst sett á í marsmánuði 2020 hefði Þjóðverjum að mestu verið hlíft við ströngu útgöngubanni. En veturinn 2020–2021 hafi aðgerðir stjórnar Angelu Merkel orðið sífellt viðurhlutameiri og raunar svo umfangsmiklar að óvíða á byggðu bóli voru lögð meiri sóttvarnarhöft á borgarana en í Þýskalandi. (Hinum síðustu var raunar ekki aflétt fyrr en í aprílmánuði 2023!)
Schröder segir herkostnaðinn af sóttvarnarráðstöfunum svo mikinn að engin leið sé að meta hann til fjár. Hvað sem því lýði verði að spyrja þeirrar spurningar hvort ávinningurinn hafi verið í réttu hlutfalli við fórnarkostnaðinn. Hún spyr hvort Þjóðverjum hafi tekist að draga úr þjáningum og dauðsföllum með hinum harkalegu aðgerðum og svarið sé neitandi. Bendir hún í því sambandi til nýlegrar rannsóknar breskra og finnskra vísindamanna á umframdauðsföllum í heimsfaraldrinum í átján ríkjum álfunnar. Þýskaland er þar fyrir miðju, en nokkur ríki sem gengu skemur í sóttvarnarráðstöfunum horfðu upp á mun færri umframdauðsföll og getur hún þar sérstaklega nágrannaríkjanna, Sviss, Hollands og Danmerkur. Að auki nefnir hún Svíþjóð og vitnar til víðfrægra ummæla Anders Tegnell, sóttvarnarlæknis Svía, sem hafði látið svo um mælt að spyrja yrði að leikslokum hvernig til hefði tekist.
Lærdómana sem draga verði skipar Schröder í fimm flokka. Fyrir það fyrsta gerir hún að umtalsefni að við tökum áhættu á hverjum degi í von um ávinning, og þurfum þar að vega og meta röksemdir, kosti og galla þess sem um ræðir hverju sinni. Við sáum líka hér á landi að dómstólar voru tregir til að taka efnislega afstöðu þess hvort tilteknar sóttvarnarráðstafanir gengju svo langt að þær skertu með ólögmætum hætti stjórnarskrárbundin mannréttindi — stjórnvöldum var einfaldlega játað rúmt svigrúm í þessu efni. Lokinu þar með haldið kirfilega á keraldi Pandóru.
Í annan stað nefnir Schröder að þegar í upphafi heimsfaraldursins hafi verið vitað að börnum stafaði ekki alvarleg hætta af sýkingu og þess vegna hafi þau engan beinan ávinning haft af þeirri alvarlegu frelsisskerðingu sem þau urðu fyrir. Börnum hafi beinlínis verið fórnað í þágu sóttvarna hinna eldri. Þetta megi aldrei endurtaka sig.
Í þriðja lagi blasi við að mati Kristinu Schröder að sóttvarnarráðstafanir hafi verið langt fram úr hófi ómannúðlegar. Fólki hafi verið meinað að dvelja með dauðvona ástvinum, jafnvel þegar hættan var orðin lítil. Aldraðir og sjúkir hafi verið látnir einangrast og í sumum þýsku sambandslöndunum var endurbólusettu fólki meira að segja meinað að yfirgefa heimili sín um lengri tíma nema til að sækja nauðþurftir.
Þá sé fjórði lærdómurinn að mati Schröder sá að við skyldum aldrei framar nálgast vísindalegar niðurstöður líkt og við hefðum höndlað sannleikann, eins og ítrekað henti á farsóttartímanum. Fjöldi málsmetandi manna gerðist meira að segja sekur um að ræða um nýjustu rannsóknir af trúarlegri sannfæringu. Vísindin eru þess einfaldlega ekki umkomin að veita okkur slíka lausn, væri það reyndin hefðum við enga þörf fyrir lýðræði og gætum falið sérfræðingaráðum að ákvarða hvað gera ætti hverju sinni. Schröder leggur áherslu á að við séum meðvituð um takmörk vísinda og skil vísinda og stjórnmála, en þau hafi virst óglögg í heimsfaraldrinum.
Mér kemur til hugar í þessu sambandi ljóðlína Goethes: „In der Beschränkung zeigt sich erst der Meister.“ Vísindaafrek verða bara unnin innan þröngra marka og sannur vísindamaður gerir sér grein fyrir takmörkunum sinna fræða. Sjálfur Isaac Newton líkti sér við lítinn dreng sem léki sér á sjávarströnd og fyndi af og til sér „til gamans og gleði óvenjulega gljáandi stein eða glitrandi skel, þar sem fram undan hvíldi ókannað hið mikla úthaf sannleikans“.
Sá hálftrúarlegi boðskapur sem okkur var fluttur á veirutímanum var raunar þeim mun fráleitari að rannsóknarniðurstöðum um veiruna var kollvarpað ótt og títt.
Fimmti lærdómurinn sem Schröder leggur til að við drögum af faraldrinum er að gera ekki lítið úr efasemdarmönnum. Þeir sem gagnrýndu aðgerðir stjórnvalda mættu oftar en ekki almennri fyrirlitningu samborgara og voru útilokaðir frá opinberri umræðu. Helstu fjölmiðlar hafi ekki gert glöggan greinarmun á þeim sem hreinlega afneituðu tilvist veirunnar og hinum sem drógu í efa að meðalhófs væri gætt við beitingu einstakra sóttarvarnarráðstafana. Sitthvað af þeirri gagnrýni sem stimpluð var sem vænisýki ofstopafólks reyndist eiga við rök að styðjast. Hún nefnir í því sambandi til að mynda að leifar af svokölluðu mRNA-bóluefni berist í brjóstamjólk og að vírusinn gæti örugglega hafa komið frá kínverskri rannsóknarstofu í Wuhanborg.
Í liðinni viku rakti ég fyrir nemendum mínum inntak meginreglunnar „audiatur et altera pars“ sem mætti þýða sem svo að hlýða beri á gagnaðilann. Þessi regla birtist okkur í hinu mikla lagasafni Jústiníanusar keisara í Miklagarði, Corpus juris civilis. Reglan var tekin upp í Jónsbók 1281, þar sem segir í 9. kapítula þingfararbálks: „Viðurmælis verður hver maður verður.“ Hér birtist okkur grundvallarþáttur í vestrænni menningu: að við gefum okkur tóm til að gaumgæfa röksemdir gagnstæðar þeim sem við aðhyllumst. Það kann að vera merki um úrkynjun vestrænnar hugsunar að þessi regla sé virt að vettugi í jafnstórum málum og allsherjarsóttkví heilu samfélaganna.
Blessunarlega stíga ýmsir málsmetandi menn fram um þessar mundir og ræða af yfirvegun og gagnrýni um þær alvarlegu aðgerðir sem ráðist var í á dögum farsóttarinnar, aðgerða sem við súpum enn seyðið af. Enn vantar þó á að stjórnvöld ráðist sjálf í vendilega skoðun á þessu máli og dragi af því lærdóma, líkt og Kristina Schröder gerir tillögu til. Hagsmunir embættismanna þeirra sem hér véluðu um sem og stjórnmálastéttarinnar eru þó þeir að lokinu verði haldið á öskju Pandóru. Því er ekki farið á annan veg hér en í Þýskalandi. Þó má halda í vonina — samkvæmt goðsögunni liggur hún enn í öskju Pandóru.