Það er að bera í bakkafullan lækinn að ræða hér afsögn menntamálaráðherrans, sem af kerskni er nú aðeins titlaður með orðskrípinu „barnamálaráðherra“, furðulegu embættisheiti sem tekið var upp í tíð hinnar fyrri lánlausu ríkisstjórnar. En meðan hvert axarskaft þingmanna og ráðherra Ingu Sæland hefur rekið annað eru hin mikilvægu úrlausnarefni látin reka á reiðanum. Raunar var það svo að menntamálaráðherrann sem lét af embætti á ríkisráðsfundi fyrr í dag hugðist lítt aðhafast til að koma á mikilvægum úrbótum í menntakerfinu. Til að mynda hafði hann ekki hug á að bæta aga í skólum og lagði þess í stað nýverið til að hafðir yrðu tveir kennarar í hverjum bekk. Ráðherrann sýndi aukinheldur ekki áhuga á að láta skólanemendur undirgangast próf á landsvísu svo hægt yrði að mæla námsárangur.
Til að koma á raunverulegum úrbótum verða ráðamenn að hafa hugsjón um réttlátt þjóðskipulag. Aristóteles taldi réttlætið sem siðferðilega dyggð hafa það hlutverk að dreifa gæðum og byrðum í samræmi við verðleika. Menn uppskæru eins og til væri sáð og að réttur yrði hlutur þess sem beittur hefði verið órétti. Þýski heimspekingurinn Wilhelm von Humboldt tók undir þetta og sagði frumkröfu réttlætisins vera að verðleikar mannsins fengju komið fram í sinni fjölbreytilegustu mynd. Æðsta markmið sérhvers siðmenntaðs samfélags væri að allir þegnar þess kæmust til sem mests þroska.
Verkskipt nútímaþjóðfélag þarfnast lærdómsmanna á ótal sviðum þekkingar til hugar og handa, en námshæfni einstaklings ákvarðast af margfeldi greindarvísitölu hans og dugnaðar. Í skólum verða menn því að fá viðfangsefni við hæfi og þar þarf að ríkja slíkur agi að menn keppi af öllu afli að því að ná hámarksárangri. Þetta er ekki hægt nema raða fólki niður á grundvelli áhuga — en ekki síður getu og hæfni. Við lifum samt á tímum þar sem það virðist vera feimnismál ef sonur hjónanna í næsta húsi er greindari en eitthvert barnanna á okkar heimili.
Ég rakst í vikunni sem leið á nærri sjötíu ára gamla samnorræna tölfræði þar sem fram kom að um fimm til átta af hundraði lykju stúdentsprófi á Norðurlöndunum. Rannsóknir í Danmörku bentu þó til að fimmtungur hefði getu til að ljúka stúdentsprófi en norskir fræðimenn töldu um líkt leyti að tvöfalt fleiri hefðu þá getu. Sem betur fer voru skólarnir opnaðir fyrir fleirum, enda jókst þörf á sérmenntuðu fólki í akademískum greinum, en með tíð og tíma hafa námskröfur bersýnilega verið útþynntar verulega, sé tekið mið af hinni nálega sjötíu ára gömlu tölfræði.
Menntahnignunin birtist til að mynda í virðingarleysinu gagnvart móðurmálinu. Blaðamaður Morgunblaðsins ræddi á dögunum við Þuríði Kristjánsdóttur prófarkalesara til áratuga sem sagði umburðarlyndið í málfarinu taka út yfir allan þjófabálk. Nú væri því þráfaldlega haldið fram að engan mætti leiðrétta því það bryti viðkomandi niður andlega. En ef ekki mætti finna að við neinn endaði það með því að málfarið skildist ekki. Kennsla íslensku væri nákvæmnisvinna þar sem ekki mætti slaka á kröfum. Orð að sönnu og þörf brýning.
Til merkis um það hvernig aðalatriði máls fara forgörðum í umræðu samtímans þá ritaði annar þeirra kandidata sem nú etur kappi um embætti rektors Háskóla Íslands grein, þar sem ekki var að finna stafkrók um menntamál — æðsta menntastofnun þjóðarinnar virtist bara ekkert hafa með menntun að gera. Inntakið í ádrepu rektorsefnisins var „jafnrétti“ og „inngilding“ í „fjölbreyttum háskóla“. Hér er enn og aftur klifað á því að fjölbreytni sé sérstök dyggð sem hún getur aldrei verið. Fjölbreytni er bara góð og slæm eftir atvikum og „fjölbreytni“ í kennslustofunni getur hæglega spillt öllum lærdómsanda.
Ég minntist að framan á að þekkingu yrði að mæla með prófum, en þau einu samræmdu próf sem nú eru lögð fyrir íslenska skólanemendur eru haldin á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Umrædd könnunarpróf leiða meðal annars í ljós að stór hluti íslenskra nemenda er ólæs við lok fimmtán ára skólagöngu. Það veldur mér þó enn meira hugarangri að þessar sömu kannanir sýna að mun færri íslensk ungmenni ná afburðarhæfni en jafnaldrar þeirra í nálægum löndum. Þetta er sérlega háskalegt í því ljósi að jafnfámennt þjóðfélag og okkar þarf hlutfallslega á mun fleiri afburðarmönnum að halda en milljónaríkin.
Til eru slík ofurmenni að þeim auðnast að sinna skyldustörfum á sómasamlegan hátt en vinna í hjáverkum afrek sem lifa lengur „en grafletur á grjóti“. Við þekkjum úr okkar sögu slíka snillinga, menn eins og Bjarna Thorarensen sem var yngstur Íslendinga til að ljúka stúdentsprófi, en hann orti kvæði sín í naumum næðisstundum frá embættisönnum. Þvílíka menn höfum við ekki eingöngu átt í hópi embættismanna heldur líka alþýðumanna sem ekki komust til mennta. Nefna má Stephan G. Stephansson sem þrisvar braut land í nýja heiminum. Á andvökunóttum milli stritsins við búskapinn orti hann sín ódauðlegu kvæði.
Til æðstu embætta, svo sem ráðherrastarfa, ættu helst að veljast slíkir afburðarmenn. Gagnrýnin á menntamálaráðherrann fyrrverandi hefur beinst að breyskleika, en Íslendingar hafa um aldir getað fyrirgefið sínum bestu sonum margvíslegar misgjörðir og þannig á það líka að vera.
Úrlausnarefnin í menntamálum eru brýn og fyrir það fyrsta þarf að setja markmið um að kunnátta íslenskra nemenda verði sambærileg við kunnáttu jafnaldra þeirra á hinum Norðurlöndunum og mætti til dæmis notast við próf þaðan, samræmd grunnskólapróf jafnt sem samræmd stúdentspróf. En hvernig sem á það er litið þá bíður nýs menntamálaráðherra ærinn vandi.