fbpx
Mánudagur 12.ágúst 2024
Eyjan

Björn Jón skrifar: Íslamskir ofsatrúarmenn

Eyjan
Sunnudaginn 11. ágúst 2024 15:00

Orrustan við Tours (stundum kölluð orrustan við Poitiers) 10. október 732. Olíumálverk Charles de Steuben frá fjórða áratugi nítjandu aldar. Varðveitt í Versölum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir rúmri viku átti ég leið með lestinni milli borganna Poitiers og Tours í Frakklandi, raunar þurfti ég að gera mér ferð með fremur hæggengri héraðslest, því háhraðalestin lá niðri eftir árás spellvirkja svo sem frægt er orðið af fréttum. Milli borganna er grösugt sléttlendi, akrar og beitiland, svo langt sem augað eygir og mér varð hugsað til frægra orrusta er háðar hafa verið á þessum slóðum. Frægur er bardagi Frakka og Englendinga við Poitiers 1356 en líklega markar viðureign múhameðstrúarmanna og kristinna við borgina Tours árið 732 meiri tímamót í sögunni. Íslamskir stríðsmenn höfðu áratugina á undan sigrað stóran hluta hins kristna heims og lagt undir kalífadæmið sem norrænir menn kölluðu síðar Serkland. Við Tours stöðvuðu Frankar sókn Serkja undir forystu Karls Martel. Hefðu Serkir haft betur er næsta víst að þeir hefðu haldið áfram norður að Rínarfljóti og líklega yfir til Bretlandseyja og Norðurlanda. Þjóðflokkarnir þar nyrðra voru lítt samhentir á þeim tíma og mótspyrna því orðið lítil.

Sagan verður ekki skráð í viðtengingarhætti, þó sagnfræðingar velti því oft upp hvernig mál hefðu getað skipast með öðrum hætti en varð. Ég var á dögunum að glugga í hið mikla verk enska átjándu aldar sagnfræðingsins Edward Gibbons um hnignun og fall Rómaveldis. Þar veltir hann því fyrir sér hvernig umhorfs væri á Bretlandseyjum hefðu Serkir sigrað Mervíkinga við Tours 732 og við skulum bara halda textanum á frummálinu:

„Perhaps the interpretation of the Koran would now be taught in the schools of Oxford, and her pulpits might demonstrate to a sircumcised people the sanctity and truth of the revelatation of Mahomet.“

Kalífadæmið í samtímanum

Í hinu mikla riti sínu rekur Gibbon fall Rómaveldis til hraðrar og stöðugrar þjóðfélagslegrar hnignunar, þar á meðal spillts heimilislífs, vitfirrtrar skemmtafíknar, vaxandi trúleysis og þrátt fyrir uppbyggingu tröllaukinna ytri varna hefði hinn raunverulegi óvinur búið um sig inni fyrir. Þegar ég las þetta á dögunum varð mér hugsað til frétta í þýskum miðlum í vor sem leið af því að íslamskir ofsatrúarmenn þar í landi krefðust afnáms lýðræðis og þjóðríkis og að komið yrðu á fót nýju kalífadæmi. Hugmyndin um Serkland hið forna virðist lifa góðu lífi.

Robert Habeck, varakanslari og efnahagsmálaráðherra Þýskalands, úr flokki græningja, er einn þeirra stjórnmálamanna sem fordæmt hefur ofstækið, kalífadæmið sé í rauninni bara annað nafn á íslamska ríkinu sem sé trúarlegt hryðjuverkaríki (þ. Religiöser Terrorstaat). Í viðtali við Welt sagði hann áróður íslamskra öfgamanna meiriháttar ógn við vestrænt lýðræði og frjálslyndishefð. Orðrétt sagði Habeck þýska sambandslýðveldið veita óvinum sínum afar mikið frelsi (þ. „lässt ihren Feinden sehr viel Freiraum“). Grípa þyrfti til aðgerða svo mannréttindi og lýðræði yrðu ekki skálkaskjól þeim sem vildu vestræn samfélög feig.

Alexander Dobrindt, þingmaður CSU á sambandsþinginu í Berlín, sagði í viðtali við Bild nú í vor að árásir íslamista á vestræn gildi og stjórnarfar yrðu að hafa alvarlegar afleiðingar. Hver sá sem vildi innleiða sjaríalög og stofna kalífadæmi í Þýskalandi væri óvinur lýðræðisins. Herða yrði refsingar við áróðri af þessu tagi með afturköllun ríkisborgararéttar og svipta yrði viðkomandi rétti til félagslegra bóta. Margir fleiri hófsamir stjórnmálamenn hafa tekið í sama streng.

Slík viðurlög eru þó næsta veik í samanburði við stríð það sem vestræn ríki hafa háð við skoðanabræður umræddra íslamista í Miðausturlöndum. Þar hafa Þjóðverjar tekið þátt í hernaði þar sem beitt hefur verið háþróuðum vopnum til að murka lífið úr hinum harðvítuga andstæðingi — enda menn sammála um að mildari aðferðir komi ekki að neinu gagni. Engum vitibornum manni dettur í hug að ganga milli bols og höfuðs á íslamistum innan landamæra Þýskalands með viðlíka hætti — enda líta menn ekki svo á að þeir séu í trúarbragðastríði líkt og Mervíkingar forðum, en hvað sem því líður þá er þessi samanburður við hin innri og ytri átök áleitinn og leiðir hugann að skrifum Gibbons.

Kalífadæmið á ekkert erindi hingað

Eftir að ég hafði dvalið í Tours gerði mér ferð á þjóðarleikvang Frakka til að fylgjast með frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikanna. Leikvangurinn stendur nærri fjölmennu hverfi innflytjenda frá Norður-Afríku og Miðausturlöndum. Þar mitt í hverfinu stendur hin forna basilíka sem kennd er við heilagan Díónýsus, þjóðardýrling Frakka, en undir kirkjunni er grafhvelfing Frakkakonunga. Þar gekk ég meðal annars fram á gröf Karls Martel sem sigraði heri múhameðstrúarmanna við Tours 732 og hratt þar með framrás þeirra norður eftir álfunni. Þegar ég kom út mátti sjá hundruð manna á leið til föstudagsbæna. Margir hafa lagt út af þessum skörpu menningarlegu andstæðum í frönskum miðlum á umliðnum árum; að svo ginnheilög kristin kirkja skuli standa mitt í hverfi innflytjenda sem játa íslamska trú. Að sjálfsögðu bera allir góðir menn þá von í brjósti að sambúð ólíkra trúarhópa geti orðið farsæl en kalífadæmið á samt ekkert erindi hingað.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ekki spurning um hjartalag heldur leiðaval

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ekki spurning um hjartalag heldur leiðaval
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Einn af forverum Ásmundar Einars lætur hann heyra það – Segir sorglegt og alvarlegt hvernig haldið sé á málefnum grunnskóla

Einn af forverum Ásmundar Einars lætur hann heyra það – Segir sorglegt og alvarlegt hvernig haldið sé á málefnum grunnskóla
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Svona getur Joe Biden orðið versta martröð Repúblikana á síðustu mánuðum sínum í embætti

Svona getur Joe Biden orðið versta martröð Repúblikana á síðustu mánuðum sínum í embætti
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón segir samgöngumál í algjörum ólestri og leggur til úrbætur

Jón segir samgöngumál í algjörum ólestri og leggur til úrbætur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Fréttastofa RÚV í fýlu – getur ekki falið svekkelsið

Orðið á götunni: Fréttastofa RÚV í fýlu – getur ekki falið svekkelsið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fyrrum stórkaupmaður leggur til róttækar aðgerðir til að bæta hag fátækra á Íslandi

Fyrrum stórkaupmaður leggur til róttækar aðgerðir til að bæta hag fátækra á Íslandi