„Ef kratar vilja reisa hér kjarnorkuver, / ég kýs þá ef það hentar mér, / ef kommar bjóða betur þá ég kommúnisti er / því kannski það hentar mér.“ Þessar hendingar eru úr víðfrægu Stuðmannalagi, „Bara ef það hentar mér“ sem kom út á hljómplötunni Listin að lifa árið 1989, eins konar söngur tækifærissinnans. Lag og texti eru eftir Jakob Frímann Magnússon og mér kom þessi smellur til hugar þegar fréttir bárust af því að Jakob Frímann væri lentur í öðru sæti Miðflokksins í Reykjavík norður fáeinum dögum eftir að ljóst var að hann yrði ekki á lista hjá Ingu Sæland sem stýrir sínum flokki sem einkafirma.
Jakob var hér á árum áður í Alþýðuflokknum og oft var rót á þeim flokki. Hent var að því gaman 1997 þegar Ágúst Einarsson yfirgaf Þjóðvaka og skráði sig aftur í Alþýðuflokkinn, að nokkrum dögum fyrr hefði hann lýst ævarandi andstyggð sinni á gömlu flokkunum (en Alþýðuflokkurinn var elstur allra flokka). Ólafur Ragnar Grímsson barðist af hörku fyrir málstað þriggja stjórnmálaflokka sem á endanum skilaði honum formennsku og ráðherraembætti — og greiddi götu hans að sjálfu forsetaembættinu sem hann gegndi lengur en nokkur annar. Trúmennska er fráleitt vísasti vegurinn til frama í pólitík.
Pólitísk landamæravarsla var lengi talsvert losaralegri vinstra megin í pólitíkinni en nú er ekki að sjá að hollustan sé neitt meiri hægra megin, enda flokkarnir orðnir svo veikir félagslega að hugmyndafræðileg festa má teljast hverfandi. Nokkrar sögur hef ég heyrt af frambjóðendum sem höfðu viðrað sig upp við fleiri en eitt framboð áður en þeir fengu tilboð sem þeim hugnaðist nógu vel.
Bolli Kristinsson kaupmaður lagði tillögu fyrir miðstjórn Sjálfstæðisflokksins fyrr á þessu ári þess efnis að flokkurinn heimilaði framboð af viðbótarlistum, DD-listum, það væri leið til að ná aftur til óánægðra flokksmanna sem væru í hjarta sínu sjálfstæðismenn en orðnir afhuga flokknum. Þetta var ágætlega rökstudd tillaga hjá Bolla en mér sýnist nú að Miðflokkurinn, alltént hvað stefnumál varðar (og með Sigríði Andersen í oddvitasæti), vera orðinn einhvers konar útgáfa af Sjálfstæðisflokknum — kannski bara með meira afgerandi áherslur og því ekki að undra að Sigmundur og félagar sópi til sín fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Ég held að þetta sé til merkis um að kjósendur þrái skýrari stefnumörkun. Og Viðreisn, sem upphaflega var klofningsbrot úr Sjálfstæðisflokknum, býður líka upp á nokkuð afgerandi áherslur. Svo að sjá sem Sjálfstæðisflokkurinn sé klemmdur þarna á milli og kjósendur, sem hugnast hafi sjálfstæðisstefnan í tímans rás, hafi nú úr að velja tveimur skýrari útfærslum af stefnumiðum Sjálfstæðisflokksins í stað þeirrar málamiðlunar sem þar hefur jafnan þurft að fara.
„Ég berjast skal á móti Bandaríkjaher / en bara ef það hentar mér. / Svo þvæ ég mínar hendur og þvílíkt af mér sver / ef það er það sem hentar mér.“ Þannig byrjar áðurnefndur texti Jakobs Frímanns og þetta minnir á Framsóknarflokkinn sem á árum áður var vaklandi í afstöðu sinni til Atlantshafsbandalagsins, flokksmenn almennt lítt hrifnir af veru Varnarliðsins en á sama tíma höfðu Sambandið og Olíufélagið gríðarlegra hagsmuna að gæta af viðskiptum við herinn. Í öllu umróti stjórnmálanna nú er þó eitt óbreytt og það er hæfileiki framsóknarmanna til að snúa stefnunni eftir því hvernig vindar blása. Framsóknarflokkurinn geldur að vonum fyrir stjórnarsamstarf síðustu sjö ára en ekki síður fyrir skort á stefnu á sama tíma og ýmsir skýrir valkostir eru uppi og líklega breytir örvæntingarfull og vandlega æfð ræða formannsins í sjónvarpskappræðunum á föstudaginn engu þar um. „Ef blökkufólkið sveltur til bjargar ég fer / en bara ef það hentar mér“, segir líka í texta Jakobs Frímanns.
Flakkið er að einhverju leyti til merkis um hnignun flokkakerfisins sem ég hef viljað rekja til ríkisvæðingar stjórnmálanna. Áðurnefnd Inga Sæland fer nú mikinn í auglýsingaskrumi sem við skattborgarar greiðum fyrir og kveðst vera „óháð“ þar sem flokkur hennar þiggur ekki framlög frá lögaðilum. Þetta eru auðvitað öfugmæli og um leið afskræming á stjórnmálastarfi að hundruð milljóna króna af skattfé skuli eytt í auglýsingar stjórnmálaflokka rétt í aðdraganda kosninga — sem í ofanálag fer að stórum hluta til amerískra stórfyrirtækja.
Og nú hefur Lilja Rafney Magnúsdóttir, fyrrv. þingmaður Vinstri grænna, dúkkað upp á lista hjá Flokki fólksins og Bjarni Jónsson, þingmaður VG, yfirgefið flokkinn og farið til Græningja sem raunar höfðu ekki afl til að bjóða fram. En römm er sú taug sem rekka dregur föðurtúna til og nú er Rósa Björk Brynjólfsdóttir komin aftur á lista hjá VG, en óvíst að það bjargi flokknum frá glötun. Svona mætti rekja vistaskiptin lengi.
Það er til marks um hnignandi flokkakerfi að áherslan nú í aðdraganda alþingiskosninga er mun meiri á einstaklinga en flokka — og ég leyfi mér að fullyrða að það þing sem kemur saman í næsta mánuði verði umtalsvert betur skipað en fráfarandi þing. Það eru líklega jákvæðustu teiknin í pólitíkinni um þessar mundir og líklega ekki fyllilega sanngjarnt að kenna pólitísk vistaskipti endilega við vingulshátt og tækifærismennsku — menn koma sér eðlilega þar fyrir sem líklegast er að þeir nái kjöri.