fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025

Björn Jón skrifar: Við heimtum sólarsýn!

Eyjan
Sunnudaginn 26. janúar 2025 15:30

Sólin, í túlkun Edvard Munch. Olíumálverk frá árinu 1909.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þess er nú fagnað víðsvegar í fjörðum gyrtum háum fjöllum að loks sjáist til sólar á nýjan leik. Á Ísafirði miðast sólardagurinn svokallaði við það þegar sól sleikir Sólgötu við Eyrartún 25. janúar. Í hvers kyns trúarbrögðum að fornu sem nýju er sólin tignuð sem hinn mikli lífgjafi og á norðlægari slóðum varð það eðlilega meiriháttar viðburður að sjá loks til sólarinnar á kaldasta tíma ársins, enda fyrirheit um komandi sumar. „Gefðu mér dýrðar þinnar sólarsýn, / sigrandi mætti gæddu ljóðin mín,“ orti Guðmundur Guðmundsson skólaskáld um friðarins Guð. Og Sólarljóð eru eitthvert kunnasta kvæði sem ort hefur verið á íslenska tungu, þar sem segir: „Sól ég sá, / sanna dagsstjörnu“.

Þrenging byggðar

Stóran hluta ársins er sólin lágt á lofti hér á norðurhjara veraldar og er við flóann byggðist borg á árunum eftir fyrri heimsstyrjöld var hún sniðin eftir erlendum borgum með randbyggðum húsum. Menn hurfu þó fljótt frá þessu fyrirkomulagi — raða þyrfti húsum með bilum á milli svo sólar nyti og þá yrði byggðin sömuleiðis að vera lágreist vegna hættu á skuggavarpi. Fyrir vikið varð hér til vinaleg og lágreist borg, reyndar ákaflega sundurleit hvað snertir húsagerðarlist, en á ýmsan hátt aðlaðandi.

Frá þessu hefur verið horfið á síðustu árum með sífelldri þrengingu byggðar. Hvarvetna þar sem unnið er að þrengingunni eru reistar randbyggðir — sem skynsamir menn sáu fyrir heilli öld að ætti ekki við hér á norðurhjaranum. Á sama tíma hafa verið teknar í notkun þúsundir íbúða án útsýnis, sem eru jafnvel þannig staðsettar að þar sést ekki heldur til sólar.

Hinn vinalegi blær borgarinnar og sundurgerðin í arkitektúrnum er óðum að hverfa. Í staðinn koma kassalaga byggingar með þverliggjandi bárujárnsklæðningu og flötum þökum sem virðast flestar hverjar reistar eftir sömu teikningu. Nýju húsin eru mörg hver látin standa þétt upp við helstu umferðaræðar og þess vandlega gætt að aðeins hinir efnameiri geti keypt sér bílastæði í kjallara — ef það fæst þá á annað borð leyfi fyrir bílakjallara.

Ásýnd borgarinnar er líka að breytast til verri vegar — víða er útsýn til fjalla horfin — hún virðist aðeins ætluð þeim ríkustu sem hafa efni á þakíbúðunum. Lítið ber á mótspyrnu gegn þessari öfugþróun því fólk neyðist til að flytja inn í flatneskjulegu stórhýsin vegna þess lóðaskorts sem yfirvöld hafa búið til.

Blowing in the wind“

Jimmy Carter, fyrrv. Bandaríkjaforseti, var jarðsunginn á dögunum. Í kosningabaráttu sinni 1976 vitnaði hann reglulega í skáldskap Bob Dylan og nú er til sýninga í kvikmyndahúsum bæjarins A complete unknown í leikstjórn James Mangold sem segir söguna af Dylan sem kemur nítján ára að aldri til New York og verður á skömmum tíma einn áhrifamesti tónlistarmaður heims. Óhætt er að mæla með mynd Mangold en Timothée Chalamet fer með hlutverk Dylans, eða „meistarans frá Minnesota“ eins og Stefán Snævarr heimspekingur kallar hann jafnan.

Í apríl 1962 samdi Dylan eitt af sínum kunnari lögum „Blowing in the wind“ sem átti ríkan þátt í að gera hann að andlegum leiðtoga ungs fólks sem var þjóðfélagslega þenkjandi. Hann mun hafa setið á kaffihúsi dag nokkurn með vinum sínum sem spjölluðu um það hvernig Bandaríkin hefðu brugðist vonum manna um lýðræðislegt þjóðskipulag og mannréttindi. Fyrr en varði hljóðnuðu menn og horfðu vondaufir í gaupnir sér. Það var þögnin sem hafði svikið okkur og textinn fæddist.

Eins hefur mér fundist ástatt í umræðu um öfugþróunina í skipulagsmálum hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Menn láta það yfir sig ganga að ásýnd borgarinnar sé eyðilögð á stórum svæðum og íbúum skapað heilsuspillandi húsnæði — allt til að þjóna lóðabröskurum og útvöldum verktökum. Græna ferlíkið í Álfabakka sem byrgir fólki sýn frá heimilum sínum hefur vakið ýmsa til umhugsunar um það á hvaða vegferð yfirvöld eru í skipulagsmálum en komið hefur á daginn að þar var engu skeytt um hagsmuni íbúa — fjármagnið réð algjörlega för.

Byltingin er skammt undan

Arkitektinn Rafael Campos de Pinho komst svo að orði í Morgunblaðinu 4. janúar sl. að afturför hefði orðið í húsagerðarlist hér á landi. Íslendingar hafi snúið baki við hlýleikanum sem einkennt hafi íslenskan arkitektúr. Sjálfur hefur hann starfað víða um heim en býr nú og vinnur hér á landi.

Hann segir ný hverfi borgarinnar því miður einkennast af köldum og kassalegum byggingum sem séu mótaðar í kringum bílastæði. Flest nýreist hús séu reist án nokkurrar tengingar við „hina ríku hefð Íslendinga fyrir hlýlegum arkitektúr á mannlegum skala,“ eins og hann orðar það. Sjálfur býr hann með fjölskyldu sinni í Hlíðunum í Reykjavík þar sem þess var gætt við skipulag að sem allra flestir íbúar nytu sólar og loftræstingar. Til skamms tíma var nefnilega hugað að því við uppbyggingu nýrra hverfa að götumyndin væri falleg og ekki byggt of þröngt.

Stóra spurningin er hvort menn ætli áfram að sitja hljóðir hjá og aðgerðalausir líkt og meistarinn frá Minnesota orti um ellegar spyrna við fótum og krefjast manneskjulegra umhverfis sem tekur mið af hefðum hér og aðstæðum. Segir mér hugur að þeir stjórnmálamenn sem tala muni skýrt um fráhvarf frá þrengingarstefnunni fái mest brautargengi í borgar- og bæjarstjórnarkosningum á næsta ári. Hér kraumar undir slík reiði að viðbrögðin gætu orðið lík byltingu þegar þau brjótast upp á yfirborðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Úkraínumenn segja að fleiri norðurkóreskir hermenn séu væntanlegir á vígvöllinn

Úkraínumenn segja að fleiri norðurkóreskir hermenn séu væntanlegir á vígvöllinn
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Eitt orð á heimasíðu bresku hirðarinnar vakti miklar áhyggjur um heilsu Karls konungs

Eitt orð á heimasíðu bresku hirðarinnar vakti miklar áhyggjur um heilsu Karls konungs
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Þurfa leikmann sem spilar öðruvísi í fremstu víglínu

Þurfa leikmann sem spilar öðruvísi í fremstu víglínu
Pressan
Fyrir 13 klukkutímum

Nokkur merki um að einhverjum líki ekki við þig

Nokkur merki um að einhverjum líki ekki við þig
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Gríðarlega hrifinn af undrabarninu: ,,Þetta er klikkað, er það ekki?“

Gríðarlega hrifinn af undrabarninu: ,,Þetta er klikkað, er það ekki?“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Áttatíu afbókanir í janúar og fleiri á leiðinni

Áttatíu afbókanir í janúar og fleiri á leiðinni
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Segist ekki þurfa að ná topp fjórum á tímabilinu – Voru um tíma bendlaðir við titilbaráttu

Segist ekki þurfa að ná topp fjórum á tímabilinu – Voru um tíma bendlaðir við titilbaráttu